Amazon hættir við að banna notkun TikTok

Í fyrri tölvupóstinum sagði að öryggisógn fælist í notkun TikTok.
Í fyrri tölvupóstinum sagði að öryggisógn fælist í notkun TikTok. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Á föstudag sendi bandaríska netverslunin Amazon starfsmönnum sínum tölvupóst þar sem þeir voru beðnir um að eyða kínverska samfélagsmiðlinum TikTok úr símum sínum, séu þeir með aðgang að Amazon-netfangi. Var það sagt vegna „öryggishættu“ sem stafaði af forritinu.

Um fimm tímum seinna fengu starfsmennirnir annan tölvupóst þess efnis að sá fyrri hefði verið sendur fyrir mistök. „Það er engin breyting á stefnu okkar hvað varðar TikTok að svo stöddu,“ segir Kristin Brown, talsmaður Amazon, í yfirlýsingu. 

Appið TikTok er í eigu kín­verska fyr­ir­tæk­is­ins ByteD­ance, en það nýtur óhemju vinsælda um allan heim um þessar mundir sökum stuttra, skemmtilegra myndbanda sem notendur deila hver með öðrum. 

Forritið hefur þó mætt vaxandi tortryggni ýmissa eftirlitsstofnana fyrir meðhöndlun persónuupplýsinga og hafa margir áhyggjur af mögulegum aðgangi kínverskra stjórnvalda að þeim. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði til að mynda á mánudag að ríkisstjórn Bandaríkjanna væri með til skoðunar að loka á appið, og önnur kínversk öpp sem væru ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Sagði hann TikTok-notendur hætta á að persónuupplýsingar þeirra enduðu „í höndum kínverska kommúnistaflokksins“

mbl.is