Til Ameríku miklu fyrr en talið var

AFP

Menn settust að í Ameríku miklu fyrr en áður var talið samkvæmt uppgötvunum vísindamanna í Mexíkó. Þær gefa til kynna að menn hafi búið þar fyrir 33.000 árum, eða um tvöfalt lengur en viðurkennt hefur verið.

Uppgötvunin er afrakstur vinnu við Chiquihuite-helli sem staðsettur er hátt yfir sjávarmáli fyrir miðri Mexíkó, en þar fundu fornleifafræðingar steinverkfæri sem gefa til kynna að menn hafi notað hellinn í minnst 20 þúsund ár.

Um og eftir miðja 20. öld sammæltust norður-amerískir fornleifafræðingar um að Clovis-mennirnir hafi orðið þeir fyrstu til að komast til Ameríku fyrir um 11.500 árum, en talið er að þeir hafi komist þangað með því að ganga landbrú frá Síberíu til Alaska á meðan á síðustu ísöld stóð, en landbrúin, sem þekkt er undir heitinu Beringia, fór á kaf þegar ísinn bráðnaði.

Clovis-fólkið var þekkt fyrir veiðar á stórum spendýrum og er talið hafa stuðlað að útrýmingu nokkurra stórra dýra, þ.m.t. mammúta og nokkurra stórra bjarndýrategunda sem áttu heimkynni sín í Ameríku þar til undir lok ísaldarinnar.

Þegar hugmyndin um að Clovis-mennirnir hafi verið þeir fyrstu til að leggja Ameríku undir fót fór að ná fótfestu innan vísindaheimsins voru aðrar kenningar að mestu leyti afskrifaðar sem óáreiðanlegar og hættu fornleifafræðingar að leita merkja um undanfara.

Þessum rétttrúnaði fór svo að hraka á áttunda áratug síðustu aldar og á þeim níunda voru áreiðanlegar heimildir fyrir því að menn hafi verið í Monte Verde í Síle fyrir 14.500 árum sett fram. Allt frá aldamótum hafa svo fleiri staðir verið viðurkenndir, þar sem talið er að menn hafi haft aðsetur í Ameríku fyrir tíma Clovis-fólksins, svo sem í Buttermilk Creek í Texas fyrir um 15.500 árum.

Nú hafa Ciprian Ardelean frá Universidad Autónoma de Zacatecas í Mexíkó og Tom Higham frá Oxford-háskóla hins vegar fundið ummerki um búsetu manna í Ameríku, nánar til tekið í Chiquihuite í Mexíkó, mun fyrr, en þeir hafa birt rannsóknir sínar í vísindatímaritinu Nature. Þeir segja sönnunargögnin mjög sterk og að um sé að ræða mjög spennandi uppgötvun.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert