„Ekki annar möguleiki í spilunum“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég ætla að fara með ykkur í gegnum þau gögn sem við höfum aflað á síðustu vikum og reyna að sannfæra ykkur um að það hafi ekki verið annar möguleiki í spilunum en sá að setja á þá reglu að allir þeir sem koma til landsins séu skimaðir, síðan settir í nokkurra daga sóttkví og síðan skimaðir aftur.“

Þannig hefst myndbandserindi Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem hann tjáir sig um hvers vegna nauðsynlegt hafi verið að grípa til harðra aðgerða á landamærunum vegna kórónuveirufaraldursins.

Eins og fram kom á blaðamannafundi á föstudaginn fara öll þau sem koma til Íslands í skimun á landa­mær­un­um frá og með miðviku­deg­in­um 19. ág­úst. Síðan fer fólk í sótt­kví og aðra sýna­töku að fjór­um til sex dög­um liðnum.

Kári segist í myndskeiðinu ætla að svara gagnrýni sem uppi er vegna þessara hertu aðgerða og fer yfir landamæraskimun frá 15. júní til 12. júlí.

Hann bend­ir á að á þeim tíma hafi 50 verið greind­ir með smit á landa­mær­un­um, þar af tólf með virkt smit. Á þeim tíma hafi tveir ein­stak­ling­ar sloppið smitaðir inn í landið.

Enn fremur fer Kári yfir stöðuna sem kom upp í lok júlí þegar hópsýking hafi orðið að samfélagssmiti, sem við erum að glíma við núna.

Kári segir skimun á landamærum ganga vel af því að flestir sem eru sýktir finnist. Þó þurfi ekki nema einn sýktur að komast inn til að byrja nýja bylgju af faraldrinum. Þess vegna verði að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir það og kerfið sem tekið verði í notkun á landamærunum á miðnætti í kvöld sé það besta, að mati Kára.

mbl.is