Vilja smita fólk af Covid-19

Kórónuveiran lítur svona út.
Kórónuveiran lítur svona út. AFP

Bresk yfirvöld hafa áhuga á að verða fyrsta þjóðin til þess að gera rannsókn þar sem heilbrigt fólk er vísvitandi smitað af Covid-19. Ef tilraunin verður að veruleika munu 90 heilbrigðir einstaklingar verða smitaðir af Covid í janúar. Er þetta gert í þeirri von að hægt verði að flýta því að bóluefni verði tilbúið gegn kórónuveirunni.

BBC greinir frá því að ríkisstjórn Bretlands sé að setja 33,6 milljónir punda, rúma sex milljarða króna, í verkefnið. Sérfræðingar sem koma að málinu segja að öryggið verði alltaf sett í fyrsta sæti en til þess að áætlunin verði að veruleika þarf hún að hljóta samþykki vísindasiðanefndar. 

Með þessari aðferð, sem felur í sér að nota manneskjur sem tilraunadýr, líður styttri tími þangað til bóluefnið er reynt þar sem ekki þarf að bíða eftir því að fólk veikist á náttúrulegan hátt. 

AFP

Rannsakendur myndu nota fyrirfram ákveðið magn af veirunni til þess að finna út hversu lítinn skammt þurfi til að sýkja sjálfboðaliða á aldrinum 18-30 af Covid-19.

Tilraunadýrin, sem verða sýkt af veirunni í gegnum nef, eru sérstaklega valin að teknu tilliti til ungs aldurs og góðrar heilsu. Fylgst verður með þeim allan sólarhringinn. 

Í næsta skrefi munu vísindamenn gera tilraun með hvort Covid-bóluefni varnar gegn sýkingu.

Dr. Chris Chiu, sem stýrir rannsókninni en hann starfar við Imperial College í London, segir að rannsóknarteymi hans hafi gert slíkar rannsóknir í meira en tíu ár. Það er að menn séu notaðir sem tilraunadýr við rannsóknir á öðrum veirum.

AFP

Misvísandi umræða um hjarðónæmi og eiginleika þess

Er náttúrulegt hjarðónæmi ekki eina skynsamlega leiðin út úr faraldri COVID-19? er spurning sem Jóhanna Jakobsdóttir, líftölfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum, og Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítalanum, svara neitandi á Vísindavef Háskóla Íslands í dag.

„Nýlega hefur talsvert borið á misvísandi umræðu um hjarðónæmi og eiginleikum þess, í þeim tilgangi að hvetja til slökunar á hörðum aðgerðum til sóttvarna víða um heim. Þann 4. október 2020 skrifaði hópur heilbrigðisstarfsmanna (meðal annars læknar og faraldsfræðingar) undir yfirlýsingu þar sem lýst var áhyggjum af hörðum sóttvarnaraðgerðum.

Kjarni þeirrar yfirlýsingar er svonefnd „Focused Protection“ sem snýst um að leyfa þeim sem eru í lítilli hættu á dauða að lifa sínu lífi óheft og þróa með sér ónæmi við COVID-19 með því að fá sjúkdóminn, samhliða því að einangra einstaklinga í mikilli áhættu. Rétt er að árétta að höfundar yfirlýsingarinnar mæla markvisst með verulegri slökun sóttvarnaraðgerða.

Þær tillögur eru þó settar fram án vísindalegs rökstuðnings og ekkert er vísað í rannsóknir eða fyrirliggjandi gögn um COVID-19 í yfirlýsingunni.

Margt sem þarna kemur fram er einfalt að hrekja með vísan í einföld gögn og rannsóknir. Hér verður lögð áhersla á ýmsar rangfærslur yfirlýsingarinnar í tengslum við hjarðónæmi. Einnig er rétt að taka fram að í yfirlýsingunni eru ekki settar fram neinar markvissar, skýrar ráðleggingar um hvernig best er að vernda viðkvæma hópa, sem er mun stærri hópur en margir gera sér grein fyrir.

Árangursríkasta og öruggasta leiðin til að vernda einstaklinga í hættu á alvarlegri sjúkdómi vegna COVID-19 er að takmarka dreifingu COVID-19 innan samfélagsins í heild,“ segja Jóhanna og Jón Magnús í svari sínu.

Talið er að 90% gætu sýkst vegna yfirskots

Kórónuveiran.
Kórónuveiran. AFP

Talið er að án samfélagstakmarkana væri hjarðónæmisþröskuldur fyrir COVID-19 um 60% ef hver einstaklingur er jafn líklegur til að smita alla aðra í þýðinu. Þetta hlutfall gerir ráð fyrir því að smitstuðull fyrir COVID-19 sé 2,5 ef engum sóttvarnaraðgerðum er beitt og að lífið gangi nokkurn veginn sinn vanagang.

„Sú forsenda að allir í vissu þýði séu í jöfnum samskiptum við aðra á sjaldnast við og því er hjarðónæmisþröskuldur án sóttvarnaaðgerða að jafnaði hærri en þröskuldurinn sem reiknaður er út án þess að tekið sé tillit til eðli samskipta í þýðinu.

Þar að auki er 60% það hlutfall þar sem smitstuðullinn fer niður fyrir einn vegna hjarðónæmis. Sýkingar stöðvast hins vegar ekki af sjálfsdáðum þegar þessu hlutfalli er náð og faraldurinn getur engu að síður haldið áfram. Talið er að um 90% þýðis gætu sýkst vegna þessa „yfirskots“,“ segir enn fremur í svari þeirra.

Hlutfall fólks í aukinni áhættu 20% hið minnsta

AFP

Ef ná á hjarðónæmi með því að vernda áhættuhópa þá er nauðsynlegt að taka tillit til þess að einstaklingar í áhættuhópi vegna COVID-19 eru í sumum tilfellum líklegri til að eiga í meiri samskiptum innbyrðis en við aðra í þýðinu.

Nærtækt dæmi eru hjúkrunarheimili, íbúðakjarnar aldraðra, félagsstarf og fleira. Hjarðónæmi þýðir ekki að engar sýkingar eigi sér stað og veiran sem veldur sýkingunni hverfi af yfirborði jarðar.

Hjarðónæmi þýðir einungis að faraldur nær ekki flugi og að jafnaði munu nýjar sýkingar ekki verða að faraldri heldur fjara út. Hins vegar, þegar sýking nær inn til áhættuhópa eftir að aðrir hafa slakað á sóttvörnum, munu áhrifin verða hlutfallslega verri.

Hlutfall einstaklinga í aukinni áhættu á alvarlegum afleiðingum vegna COVID-19-sýkingar er minnst 20% á Íslandi. Samhliða því að hjarðónæmisþröskuldur vegna COVID-19 er að minnsta kosti 60% er ljóst að nær ómögulegt yrði að ná hjarðónæmi með náttúrulegri sýkingu meðal þjóðarinnar án alvarlegra afleiðinga.

„Hér skiptir auk þess miklu máli að undirstrika að viðunandi hjarðónæmi er engan veginn staðreynd fyrir alla smitsjúkdóma, ólíkt því sem víða er haldið fram. Hver og einn sýkill býr yfir sérstæðum eiginleikum sem hafa áhrif á þróun hjarðónæmis, mikilvægi þess og möguleika,“ segir ennfremur.

Ónæmi er í raun regnhlífarhugtak yfir sérlega margslungið og breytilegt svar okkar við sýkingu. Sumar sýkingar mynda gott, sterílíserandi ónæmi sem kemur alfarið í veg fyrir að við fáum aftur tiltekna sýkingu. Þessar sýkingar með tímanum ná að mynda sterkt hjarðónæmi sem bæði dregur úr dreifingu sýkingar og einnig afleiðingum hennar.

„Aðrar sýkingar mynda verndandi ónæmi sem minnkar alvarleika sjúkdóms vegna sýkingar en kemur ekki í veg fyrir sýkinguna. Áhrif verndandi ónæmis á hjarðónæmi er mjög breytilegt - í sumum tilfellum kemur ónæmið svo vel í veg fyrir sjúkdóm að eiginlegt hjarðónæmi myndast þrátt fyrir að dreifing sýkilsins geti enn átt sér stað, til dæmis í tilfelli mænusóttar.

Í öðrum tilfellum er ónæmið aðeins verndandi að hluta og sýkillinn getur áfram dreifst, sem er líklega raunin fyrir fjölda efri öndunarfærasýkinga. Í þessum tilfellum er mögulegt að viðunandi hjarðónæmi náist ekki með náttúrulegri sýkingu, sérstaklega ef ónæmi varir stutt (sjá fyrir neðan).

Í sumum tilfellum myndast hreinlega ekki nægilegt ónæmi til að koma í veg fyrir sýkingu eða sjúkdóm (til dæmis í lifrarbólgu C og HIV-sýkingum),“ segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Hversu lengi varir ónæmið?

Annað lykilatriði fyrir hjarðónæmi er hversu lengi ónæmi varir. Í mörgum tilfellum myndast gott ónæmi í fyrstu sem síðan dvínar með tímanum. Þetta er til dæmis raunin fyrir nóróveirusýkingar, og er einnig talið gilda um algengar kórónuveirur sem valda kvefi.

Stundum getur langvirkt ónæmi myndast en aðeins eftir nokkrar, endurteknar sýkingar með vissum orsakavaldi - þetta er til dæmis notað í svokölluðum „booster“-bólusetningum, þar sem bólusett er nokkrum sinnum til að mynda langvarandi ónæmi.

„Oft er dreifingarmáti sýkils vanmetinn þáttur í umræðunni um hjarðónæmi. Eins og nefnt var hér fyrir ofan er ein forsendan í útreikningi hjarðónæmisþröskulds að blöndun einstaklinga í þýði, og þar af leiðandi hætta á smiti, sé jöfn meðal allra. Þetta á í raun mjög sjaldan við en verður minna mikilvægt þeim mun betur sem sýkingarvaldur dreifist.

Hér er aftur gott að taka sérstaklega fyrir mislinga - mislingar dreifast sérlega vel á milli manna (meðal annars með úðasmiti) og eiga það til að sýkja meirihluta einstaklinga innan viss þýðis, meðal annars ef blöndun er mismikil.

Aðrar sýkingar dreifast hins vegar misvel - COVID-19 er í raun fullkomið dæmi, þar sem aðeins minnihluti einstaklinga virðist dreifa sjúkdómnum sérstaklega vel áfram. Þetta hefur sérstaklega mikla þýðingu varðandi hversu lengi hjarðónæmi er að þróast fyrir hvern sýkingarvald.

Af öllu ofangreindu er hægt að segja að þeir sýklar sem valda langvarandi, sterílíserandi ónæmi og dreifast vel innan samfélags eru þeir sýklar sem einnig stuðla helst að góðu hjarðónæmi.

Því miður á þetta aðeins við um lítinn hóp sýkinga og meðal annars í þeim tilfellum er hjarðónæmi ekki alltaf nægilegt til að koma í veg fyrir alvarlega faraldra yfir lengri tíma (til dæmis í tilfelli mislinga).

Einnig myndast viðunandi hjarðónæmi mjög sjaldan á stuttum tíma - ef faraldri er leyft að ganga lausum um samfélag myndast ekki viðunandi hjarðónæmi að honum loknum, nema um sé að ræða lítið, samhelt þýði.

Oftast tekur það að minnsta kosti nokkur ár og þannig nokkrar bylgjur smitsjúkdóms, til að hjarðónæmi verði nægilegt til að hægja á dreifingu smitsjúkdóms.

Í einföldu máli þýðir þetta að ekki allar sýkingar mynda náttúrulegt, viðunandi hjarðónæmi og því er náttúrulegt hjarðónæmi engan veginn staðreynd, sérstaklega fyrir nýja smitsjúkdóma sem tiltölulega lítið er vitað um.

Einnig myndast viðunandi hjarðónæmi í stórum samfélögum ekki á stuttum tíma,“ segja þau Jóhanna og Jón Magnús í svari sínu en það er hægt að lesa í heild hér.

mbl.is