Hvetjandi að fá rödd sem heyrist

Hrönn Birgisdóttir afhenti Sigrúnu Grendal tjáskiptatölvuna.
Hrönn Birgisdóttir afhenti Sigrúnu Grendal tjáskiptatölvuna.

Greiningar- og ráðgjafarstöð (GRR) barst á dögunum gjöf frá Öryggismiðstöð Íslands. Um var að ræða Tobii tjáskiptatölvu með íslenskum talgervli. Þetta kemur fram í tilkynningu en þar segir að tölvan sé sérhæfð til tjáskipta. Hún er með snertiskjá og öflugum hátalara sem hentar einstaklingum sem geta ekki tjáð sig á hefðbundinn hátt. Í tölvunni eru uppsett tjáskiptaforritin Snap Core First og Communicator.

Sigrún Grendal, talmeinafræðingur hjá GRR og ráðgjafi um óhefðbundnar tjáskiptaleiðir hefur unnið mikið með þessa tegund af tjáskiptatölvu með sínum skjólstæðingum.

„Tobii tjáskiptatölvan nýtist vel mörgum einstaklingum sem geta notað myndir til tjáskipta. Með forritunum sem henni fylgja er hægt að útbúa tjáskiptatöflur með þarfir hvers og eins í huga. Þar er bæði að finna staðlaðar tjáskiptatöflur og einnig er byggja þær upp frá grunni með getu og þarfir hvers einstaklings að leiðarljósi. Forritunum fylgir veglegur myndabanki þar sem flestir ættu að geta fundið táknmyndir sem hæfa notandanum. Auk fjölbreytts úrvals táknmynda er Bliss-táknmálið aðgengilegt í Communicator forritinu og auðvelt er að nota ljósmyndir og annað myndefni með því efni sem fyrir er,“ er haft eftir Sigrúnu í tilkynningu.

Jafnframt segir Sigrún að fyrir þann sem nýtir tjáskiptatölvu með íslenskum talgervli sé afar hvetjandi að hafa nú fengið rödd sem heyrist.

„Nú getur viðkomandi tjáð sig við víðari hóp viðmælanda og tjáskiptin byggja ekki alfarið á því að viðmælandinn standi yfir notandanum og lesi á það sem hann bendir á. Auðveldara er að ná athygli annarra því nú getur viðkomandi látið heyrast í sér í orðsins fyllstu merkingu. Nú er hægt að kalla á aðstoð svo allir heyri og biðja vinina að koma að leika eða mæta á íþróttaviðburði og láta heyrast í sér hvort sem verið er að hvetja liðið sitt áfram með tilheyrandi orðaforða, bölva dómaranum, fagna sigri eða hvað það nú er sem jafnaldrarnir gera. Hversu magnað og frelsandi er það,“ segir Sigrún og bætir við að nýja tölvan muni nýtast mjög vel á Greiningarstöðinni til að prófa væntanlega notendur og meta þörf þeirra fyrir slíkt tæki.


„Með þessari gjöf vill Öryggismiðstöðin styðja við það faglega starf sem unnið er á Greiningar- og ráðgjafarstöð,“ er haft eftir Hrönn Birgisdóttur iðjuþjálfa og viðskiptastjóra á Öryggismiðstöðinni í tilkynningu. Hún afhenti GRR tjáskiptatölvuna góðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert