Telja sig hafa uppgötvað heimsálfuna Íslandíu

Eldgosið í Geldingadal. Reynist tilgátan um Íslandíu rétt gæti það …
Eldgosið í Geldingadal. Reynist tilgátan um Íslandíu rétt gæti það breytt hugmyndum manna um það hvernig eldfjallaeyjur eins og Ísland verða til. mbl.is/Kristinn Magnússon

Teymi jarðvísindamanna telur sig hafa uppgötvað nýja sokkna  „heimsálfu“ sem liggi falin undir Íslandi og nærliggjandi höfum. Hafa vísindamennirnir gefið heimsálfunni meintu heitið „Íslandía“.

Gillian Foulger, prófessor við háskólann í Durham á Englandi, er aðalhöfundur greinar um efnið, en í frétt á vef háskólans segir að heimsálfan gæti teygt sig frá Grænlandi alla leið til Evrópu, og þeki þá svæði sem sé um 600.000 ferkílómetrar að stærð. Segir hins vegar einnig í fréttinni að ef svæði vestan Bretlandseyja séu talin með gæti „Stór-Íslandía“ spannað rúmlega eina milljón ferkílómetra.

Þá segir einnig að ef tilgáta vísindamannanna sé sönnuð myndi það þýða að risa-álfan Pangaea, sem sögð er hafa skipst upp í núverandi heimsálfur fyrir 50 milljónum ára, væri í raun ekki enn sundruð. 

Kenningin er sögð ögra fyrri hugmyndum vísindamanna um stærð hafsbotnsskorpna og meginlandsskorpna í Norður-Atlantshafi, sem og hugmyndum um hvernig eldfjallaeyjur eins og Ísland myndist. Komi á daginn að um meginlandsskorpu frekar en hafsbotnsskorpu sé að ræða gæti þar verið að finna nýjar auðlindir steinefna og kolvetna. 

Þá segir í frétt háskólans að teymið sé nú að vinna með fólki vítt og breitt um heiminn til að prófa og sanna tilgátu sína, og mun sú vinna hefjast um leið og takmarkanir vegna heimsfaraldursins leyfa það.  

Hér má sjá grein vísindamannanna þar sem fjallað er nánar um málið.

mbl.is