Carbfix vann tvöfalt í kolefnisverðlaunum Elon Musk

Vinningsumsóknirnar tvær sem Carbfix stendur að voru unnar í samstarfi …
Vinningsumsóknirnar tvær sem Carbfix stendur að voru unnar í samstarfi við fyrirtæki sem hafa þróað nýstárlega tækni til að fanga CO2 úr andrúmslofti. Ljósmynd/Aðsend

Carbfix hefur ásamt samstarfsaðilum sínum unnið tvenn Milestone-verðlaun í fyrri umferð XPRIZE Carbon Removal-verðlaunanna, sem Elon Musk og Musk Foundation standa að.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Carbfix, en þar segir jafnframt að verðlaunin hafi verið stofnuð til að veita alls 100 milljónum dollara til verkefna sem þykja líklegust til að ná árangri við föngun og förgun kolefnis.

Þá segir, að alls hafi borist yfir 1.100 umsóknir í samkeppnina. Í þessum fyrri áfanga völdu sjötíu dómarar fimmtán sigurlið sem hljóta eina milljón dollara hvert í verðlaunafé.

„Vinningsumsóknirnar tvær sem Carbfix stendur að voru unnar í samstarfi við fyrirtæki sem hafa þróað nýstárlega tækni til að fanga CO2 úr andrúmslofti, annars vegar Heirloom og hins vegar Verdox. Þáttur Carbfix felst í að nýta tækni fyrirtækisins, sem góð reynsla er komin á, til að farga CO2 með öruggum og varanlegum hætti með steinrenningu neðanjarðar,“ segir í tilkynningunni. 

Þá segir, að allar umsóknir geti enn keppt um 80 milljónir dollara sem verði veittar aðalverðlaunahöfum árið 2025. Til að vinna aðalverðlaunin þurfi keppendur að hafa sýnt fram á raunverulega föngun og förgun á 1.000 tonnum af CO2 á ársgrundvelli, gert kostnaðaráætlun fyrir eina milljón tonna á ársgrundvelli, og lagt fram raunhæfa áætlun um að ná 1.000 milljónum tonna á ársgrundvelli með sjálfbærum hætti í framtíðinni.

mbl.is