Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar

Stanislas Dehanene er einn fremsti vísindamaður á sviði heila, náms …
Stanislas Dehanene er einn fremsti vísindamaður á sviði heila, náms og færni og mun tala á málþingi Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar í byrjun mars.

Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar var stofnað í júní 2021. Hermundur Sigmundsson og Svava Hjaltalín fara hér yfir verkefni stofnunarinnar og hverju hún hefur fengið áorkað frá stofnun og verkefnin framundan.

Það eru stórar áskoranir í íslensku samfélagi. Líðan barna og ungmenna fer versnandi. Staða landsins í PISA sem mælir grunnfærniþætti eins og lesskilning, stærðfræði og náttúrufræði hefur stöðugt farið niður á við síðan 2000. Skýrsla UNICEF frá 2020 sýndi að 38% 15 ára barna ná ekki grunnfærni í lesskilningi og stærðfræði og í félagsfærni skorum við lægst í Evrópu, af OECD-löndum.

Áskoranir

Það skortir meðal annars upplýsingar um stöðu orðaforða, málskilnings og félagsfærni hjá þriggja ára börnum. Upplýsingar um hversu mörg börn hafa brotið lestrarkóðann, geta tengt saman hljóð og lesið orð, þegar þau hefja grunnskólagöngu. Um það hversu mörg börn eru læs eftir 2. bekk, geta lesið texta án vandkvæða og skilið innihald hans. Þar að auki vantar einfalt stöðumat í fögum eins og lestri/lesskilningi, stærðfræði og náttúrufræði, til að geta gefið börnum réttar áskoranir miðað við færni. Þær eiga hvorki að vera of léttar né of þungar.

Það að:

leggja áherslu á að kenna bókstafi/hljóð/læsi fyrir börn á leikskólaaldri

leggja fyrir ólæs börn orðadæmi í stærðfræði

nota of þunga kennsluaðferð fyrir börn í 1. bekk

mæla leshraða þrisvar sinnum á ári hjá börnum sem eru meira og minna ólæs

getur að okkar mati verið dæmi um aðstæður þar sem mörg börn fá of stórar áskoranir, sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Afleiðingar sem geta leitt af sér skerta sjálfsmynd barna, skerta áhugahvöt, aukinn kvíða og meiri vanlíðan. Þetta sjónarmið byggist á margra ára vísindastarfi Finnans Heikki Lyytinen, sem heimsótti okkur til Íslands í október sl. Ábyrgð allra sem að menntun barna og ungmenna koma er mikil.

Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla íslands og stjórnandi Rannsóknarseturs um …
Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla íslands og stjórnandi Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar. mbl.is/Kristinn Magnússon

 

Það hljómar einfalt að segja að gefa þurfi börnum réttar áskoranir miðað við færni, en það er mjög krefjandi. Kennarar/þjálfarar/foreldrar þurfa bæði að þekkja vel viðfangsefni hvers tíma og vita hvar viðkomandi einstaklingur stendur tengt því. Þar kemur einfalt stöðumat, vörður, okkur að góðum notum.

Vísindi

Efla árangur: Ef við styðjumst við kenningu Ericssons (1947-2020), eins af fremstu vísindamönnum heims á sviði náms og færniþróunar, þá eru lyklar hennar stöðumat og eftirfylgni. Stöðumat, sem segir til um hvar þekking eða færni liggur, er lykill að því að geta fylgt námi vel eftir og þjálfað nemendur markvisst. Stöðumat er þróað í gegnum rannsóknir og mikilvægt er að það sé bæði metið miðað við áreiðanleika og gildi. Að nota vísindin, sem byggjast á rannsóknum, sem útgangspunkt fyrir þjálfun er gífurlega mikilvægt svo að hægt sé að efla bæði færni og þekkingu. Það á aldrei að vera neinn vafi á að nálgunin sem valin er byggist á fremstu vísindum (e. evidence based practice).

Bæta líðan: Ef við byggjum á kenningu Csikszentmihalyis (1934-2021), eins af þeim stóru innan vísindanna, er lykillinn að bættri líðan, sterkari sjálfsmynd og aukinni áhugahvöt að börn og unglingar öðlist leikni og fái tilfinninguna „ÉG GET!“. Rannsóknir Csikszentmihalyis hafa sýnt að gífurlega mikilvægt er að áskoranir séu í samræmi við færni. Þá kemst einstaklingurinn í flæði. Okkar rannsóknir sýna að flæði hefur sterk tengsl við bæði þrautseigju og ástríðu. Við finnum meðal annars að þrautseigja hefur áhrif á flæðisupplifun og flæðisupplifun hefur áhrif á þrautseigju. Að upplifa flæði er jákvætt, meðal annars fyrir nám og vellíðan og minnkar upplifða streitu. Csikszentmihalyi getur líka um mikilvægi þess að einstaklingur geti valið sér viðfangsefni (e. Autotelic experience). Báðir þessir virtu fræðimenn hafa einnig rætt um mikilvægi svokallaðs „mentors“ eða einstaklings sem kemur með góð ráð og stuðning og jákvæða styrkingu. Jákvæð styrking er gífurlega mikilvæg til að styrkja námsferlið, áhugahvöt og sjálfsmynd.

Svava Hjaltalín, grunnskólakennari og verkefnasjtóri Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar.
Svava Hjaltalín, grunnskólakennari og verkefnasjtóri Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar.

Möguleikar

Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar var stofnað 1. júhí 2021 sem samvinnuverkefni Samtaka atvinnulífsins og Háskóla Íslands. Yfir setrinu er eigin stjórn og eru stjórnarmeðlimir bæði úr fræðasamfélaginu sem og úr atvinnulífinu. Setrið hefur þrjú meginmarkmið:

- Að vinna að rannsóknum: Fyrsta verkefnið okkar er Kveikjum neistann, sem er rannsóknar- og þróunarverkefni sem er unnið að í Vestmannaeyjum í góðu samstarfi við heimafólk, bæði bæjaryfirvöld, Grunnskóla Vestmannaeyja og Bókasafn Vestmannaeyja. Eitt af verkefnunum í Kveikjum neistann er að þróa stöðumat á lykilþáttum grunnfærni. Setrið hefur það líka á stefnuskrá sinni að auka íslenskar menntarannsóknir og erum við komin í gang með verkefni sem tengist leikskólaaldri með áherslu á þriggja ára börn og grunnfærni.

- Að vinna að miðlun: Miðlun felst meðal annars í ritun vísindagreina í alþjóðleg tímarit. Hún felst einnig í að rita pistla í blöð og að halda úti síðu á Facebook: Vísindi og menntun.

- Að vinna að fræðslu: Þriðja höfuðmarkmið rannsóknarsetursins er fræðsla. Hún felst meðal annars í styttri kúrsum, námskeiðum og málþingum. Síðasta árið voru haldin þrjú málþing og það fjórða verður haldið nú í mars.

3.03.2022 heiðruðu okkur með nærveru sinni tvær af fremstu bresku fræðimönnunum í lestri, Maggie Snowling og Kate Nation prófessorar, í boði breska sendiherrans á Íslandi, dr. Bryony Mathew.

19.– 21.10.2022 heiðraði okkur með komu sinni Heikki Lyytinen, prófessor, einn af fremstu fræðimönnum Finna á sviði taugavísinda og læsis. Hann flutti fyrirlestur á málþingi í Reykjavík fyrir íslenska sérfræðinga og heimsótti einnig Vestmannaeyjar. Hann hélt erindi á málþingi um reynsluna af fyrsta árinu með Kveikjum neistann, hugmyndafræðinni við Grunnskóla Vestmannaeyja.

Þann 3.03.2023 kl.14.00 verða hjónin og prófessorarnir, Stanislas Dehanene og Ghislaine Dehanene-Lamberts, með erindi á málþingi okkar í Grósku. Þau eru bæði framúrskarandi vísindamenn og er Stanislas talinn vera einn fremsti fræðimaður heims á sviði heila, náms og færni. Það er mikill heiður fyrir okkur að fá þau hjónin til landsins. Á málþinginu munu forseti Íslands, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mennta- og barnamálaráðherra ásamt forseta Menntavísindasviðs Háskóla Íslands heiðra okkur með nærveru sinni.

Við erum afar stolt af því eina og hálfa ári sem rannsóknarsetrið hefur starfað. Við höfum lagt okkur fram um að efla og glæða vísindi til hins besta fyrir börnin. Við erum þess fullviss að í fremstu vísindum leynast lyklar að hvers kyns framförum í menntamálum sem og í öðrum mikilvægum málaflokkum.

Tryggjum áhugahvöt, betri líðan og bætum árangur barnanna okkar. Styðjumst við og eflum íslenskar menntarannsóknir sem gera gott skólastarf betra og bæta líðan í leik og starfi.

Við þökkum öllum sem hafa hvatt okkur áfram og sýnt okkur stuðning og velvilja. Það er ómetanlegt.

Saman eflum við mannauð!

Hermundur er prófessor við Háskóla Íslands og stjórnandi Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar og Svava er grunnskólakennari og verkefnastjóri setursins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert