Uppgötvuðu meyfæðingu krókódíls

Krókódíll í Kosta Ríka eignaðist afkvæmi sem bar 99,9 prósent …
Krókódíll í Kosta Ríka eignaðist afkvæmi sem bar 99,9 prósent sama erfðaefni og móðirin. Myndin tengist ekki fréttinni beint. AFP

Vísindamenn hafa staðfest fyrsta tilfelli meyfæðingar hjá kvenkyns krókódíl, en hún hafði ekki komist í tæri við karldýr í um 16 ár. Afkvæmið deildi 99,9 prósent af erfðaefni móðurinnar. 

Samkvæmt The Guardian er krókódíllinn sem um ræðir Amerískur krókódíll eða Crocodylus acutus, sem hefur lifað á afgirtu svæði í Kosta Ríka síðan árið 2002. Krókódíllinn var fluttur þangað tveggja ára að aldri, og hefur lifað þar allar götur síðan, án samskipta við aðra krókódíla. 

Starfsfólk dýragarðsins uppgötvaði að krókódíllinn hafði verpt 14 eggjum árið 2018, sem er svo sem ekki í frásögur færandi, nema að eitt þeirra klektist út þrátt fyrir að vera ófrjóvgað.

Ófrjóvguð krókódílaegg. Myndin úr safni.
Ófrjóvguð krókódílaegg. Myndin úr safni. AFP

Gæti bent til kynlausar fjölgunar risaeðla

Uppgötvunin er áhugaverð í sjálfu sér en í nýútgefni grein í ritrýnda tímaritinu Biology Letters eða Líffræðibréfunum, segir að meyfæðingin geti bent til þess að forfeður skriðdýranna, þar á meðal risaeðlur hafi líka getað fjölgað sér með geldæxlun þ.e. ókynjuð fjölgun. 

Geldæxlun hjá dýrum er helst þekkt hjá skordýrum, liðdýrum, fiskum og krabbadýrum og eru þekkt dæmi um slíkt hjá snákum og eðlum, en hefur ekki áður sést hjá krókódílum. Geldæxlun kvendýra er afar sjaldgæf, en á sér yfirleitt stað í tilfellum þar sem fjölgun er stefnt í hættu t.d. vegna umhverfisaðstæðna eða skort á mökum.

mbl.is