Geimfarar lendi ekki á tunglinu fyrr en 2026

Frá geimskoti Artemis 1.
Frá geimskoti Artemis 1. AFP/Jim Watson

Bandaríska geimferðastofnunin (NASA) hyggst fresta áætlun sinni um að senda mannað geimfar á tunglið frá árinu 2025 til ársins 2026 vegna tæknilegra örðugleika.

NASA tilkynnti Artemis-áætlunina árið 2017. Hún er nefnd eftir grísku gyðjunni og systur Apollo, en það var einmitt með Apollo-áætluninni sem menn gengu fyrst á tunglinu.

Með Artemis-áætluninni á að afla frekari upplýsinga um tunglið og þá er áætlunin hugsuð sem ákveðinn undirbúningur fyrir mannaðar ferðir til Mars.

Næsta ferð í september 2025

Fyrsta geimferðin, Artemis 1, átti sér stað árið 2022 eftir að hafa verið frestað nokkrum sinnum. 

Artemis 2 hefur verið frestað þar til í september árið 2025 en í þeirri ferð fer áhöfn út í geim en mun þó ekki lenda á tunglinu. 

Í geimferðinni Artemis 3 er gert ráð fyrir að fyrsta konan og fyrsta manneskjan sem er ekki hvít á hörund lendi á suðurpóli tunglsins. Sú geimferð á að eiga sér stað í september árið 2026. 

Geimfararnir Reid Wiseman og Victor Glover, Christina Koch, Jeremy Hansen …
Geimfararnir Reid Wiseman og Victor Glover, Christina Koch, Jeremy Hansen eiga að lenda með Artemis 3 á tunglinu árið 2026. AFP/Brendan Smialowski

„Öryggi er í forgangi hjá okkur, og að gefa teymunum sem vinna að Artemis meira tíma til þess að leysa áskoranir,“ sagði Bill Nelson, forstjóri NASA, í dag.

NASA ætlar einnig að byggja geimstöð á tunglinu, Gateway, til þess að auðvelda geimferðum að lenda á tunglinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka