Silungur er meiri áskorun en lax

Með sex punda bleikjuna úr Hraunsfirði sem var veidd í …
Með sex punda bleikjuna úr Hraunsfirði sem var veidd í vor í snjókomu. Ólafur Tómas var himinlifandi með þennan fisk. Ljósmynd/Aðsend


Veiðimaður vikunnar að þessu sinni er veiði-Snapchat stjarnan Ólafur Tómas Guðbjartsson. Snappið hans ber heitið Dagbók urriða (dagbokurrida) og nýtur verulegra vinsælda. Flest snöppin hans eru frá silungsveiði en hann segist raunar veiða allt – allar tegundir fiska.

Ólafur segir æskuminningar sínar úr veiði vera sjóbleikjuveiði við holræsin við Blönduós og húkk í Blöndu. „Ég er alinn upp á Blönduósi og við krakkarnir fylgdumst með köllunum að húkka. Við gátum setið heilu dagana og fylgst með þessu.“ Hann hlær að þessu í dag og segir að þetta sé eitthvað „Jurassic“ og frumstætt. Sjálfur veiðir hann eingöngu á flugu og sleppir nánast öllu sem hann veiðir. „Ég drep alveg fiska, og mér finnst lax mjög góður og vel haldin sjóbleikja. En ég vanda valið og veit hvað ég þarf.“

 Tvær 28 gramma Toby-plötur

„Mér finnst svolítið skrítið að vera að tala um þetta,“ segir Ólafur hlæjandi. Þarna voru menn með jafnvel tvær 28 gramma Toby-plötur og sökkur og stórar þríkrækjur. Pabbi veiddi stundum svona þó að ég vissi að hann var ekki hrifinn af þessu en þetta var einfaldlega hluti af lífinu á Blönduósi á þeim tíma. Margir voru mjög flinkir í þessu og gátu veitt ótrúlega vel. Það var stundum verið að draga þessa fiska upp á uggunum eða bakinu, en Blanda var á þeim tíma, fyrir tíma stíflunnar, beljandi súkkulaðilitað stórfljót.“ Hann viðurkennir að þrátt fyrir þetta eigi Blanda alltaf stað í hjarta sér. „Það er einhver æskuljómi í kringum hana, sem ég losna ekki við.“

Í síðustu viku fór Ólafur að veiða lax í Blöndu uppi á bæði þriðja og fjórða svæði. „Í gamla daga var Blanda bara drulluskítug og ekki fallin til hefðbundinna laxveiða. Nú er þetta önnur á. Upp frá á fjórða svæðinu er hún kristaltær og ég lét mig hafa það að fara í sumar, þó að ég væri hundveikur. Náði að kasta í nokkrar mínútur á hvoru svæði og náði að setja í lax á  báðum svæðum, en landaði bara fiski á svæði fjögur á Sunray shadow. Það var 80 sm hængur sem fékk auðvitað líf að nýju, enda ber að sleppa öllum laxi yfir 70 sm á svæði fjögur.“

Ólafur Tómas Guðbjartsson er veiðimaður vikunnar. Hann er alinn á …
Ólafur Tómas Guðbjartsson er veiðimaður vikunnar. Hann er alinn á Blönduósi og kynntist þar ýmsum veiðiaðferðum. Ljósmynd/Aðsend

Veskið ræður

Hann segir veskið ráða því að hann fer ekki oft í lax. Ég myndi auðvitað vilja fara meira í lax en silungsveiðin er einfaldlega mikið ódýrari. „En þó að ég væri milljónamæringur myndi ég líklega samt veiða meira af silungi. Mér finnst laxinn einfaldlega ekki eins mikil áskorun og silungurinn. Silungur er alvöruáskorun.“

Nokkrar af síðustu ferðum snapparans hafa vakið verulega athygli. Þar má nefna ferð í Geitabergsvatn á kajak. „Ég hafði heyrt að í því vatni væru mjög stórir urriðar. Aðrir veiðimenn höfðu sagt mér að þarna veiddist aldrei neitt. Þetta var áskorun. Ég eignaðist Wilderness Radar 115 kajak frá Ósnum Kayaks fyrir stuttu og það gjörbreytti veiðiumhverfi mínu. Ég var afskaplega ánægður þegar ég setti í boltafisk þar á Black Ghost í vatninu. Að fá fisk í þessu vatni sem hefur svikið svo marga veiðimenn, var ígildi þess að veiða marga fiska. 

Ástríðuveiðimaður 

Ólafur Tómas er ástríðuveiðimaður og byrjar um leið og fyrstu árnar og vötnin opna 1. apríl og hættir þegar þær síðustu loka. Þingvallavatn er einn af hans stöðum. Honum finnst raunar ekki merkilegt að veiða ísaldarurriðan. „En auðvitað slæðist einn og einn með þegar maður er að leita að bleikju. En ég hef engan áhuga á honum. Ég er að leita að bleikjunni.“ Talið barst að urriðanum þegar hann er spurður um stærsta silung sem hann hefur veitt. Hann hefur veitt nokkra stóra urriða. Giskar á að sá stærsti hafi verið tólf pund og það að sjálfsögðu í Þingvallavatni. „En mér finnst miklu merkilegri stóra spikfeita sjóbleikjan sem ég fékk í snjókomu í Hraunsfirði í vor, sem stóð sex pundin. Það var svakalega flottur fiskur og ekki síður bragðgóður. En kannski vita það ekki margir, að sjóbleikjan á það til að kíkja út í sjó á veturna eftir æti, ef saltmagnið í sjónum fyrir utan er næginlega lágt. Þær geta því sumar verið vel feitar snemma á vorin í Hraunsfirði. Þetta kom í ljós í rannsóknum sem gerðar voru á sjóbleikjum í Hvítá, þar sem útvarpssendar skrásettu ferðalag bleikjunnar yfir vetrartímann. Þessi var til að mynda full af marfló þegar ég veiddi hana. Það hefði í raun átt að gera derhúfur og boli með henni. Hún var svo flott. Þetta var í apríl og vorið var svona bara rétt að gera vart við sig.“ Svo eru margir minni fiskar sem hafa veitt mér meiri ánægju en þeir stærri, bara vegna þess hvar ég var staddur í huganum þegar ég fékk þá.“

Á myndinni sem fylgir með greininni má sjá að snjór er á bleikjunni og hvítur bakgrunnur. En falleg er hún. Það er samt ekki svo að Ólafi Tómasi sé í nöp við urriða. Þvert á móti. Hann fór fyrr í sumar á silungasvæðið í Fossá í Þjórsárdal. „Ég var búinn að leita lengi og tók svo fram Rektor og strippaði hann hratt yfir. Þar sem ég fékk viðbrögð þar var fiskur. Þá breytti ég um aðferð og tók þrjá á púpur með tökuvara. Það er svo miklu auðveldara að kasta á þá andstreymis þegar maður er búinn að staðsetja þá.“

Þegar hann veiðir á Þingvöllum er hann að leita að …
Þegar hann veiðir á Þingvöllum er hann að leita að bleikju og finnst ekkert merkilegt að fá urriða. Ljósmynd/Aðsend

Talið berst að hinu eilífa umræðuefni silungsveiðimansins – flugunni. Ef hann ætti að velja eina flugu til að hafa með sér í silungsveiði þá myndi hann velja Krókinn eftir Gylfa Kristjánsson. Krókurinn er mögnuð silungsveiðifluga og þarf að vera til staðar hjá öllum sem veiða silung. „Hún er afskaplega vel liðin af öllum silungum.“ Hann hlær.

Ólafur segist vera að byrja að hnýta sjálfur. „BYRJA, sko. Þetta er óttalegt hrat sem ég er að hnýta og hef enn ekki upplifað að veiða silung á flugu eftir sjálfan mig. Þar spilar mest inn í að þær eru enn svo ljótar og ég hef ekki trú á þeim. En ég á eftir að batna í þessu. Ég fékk hnýtingagræjur í jólagjöf fyrir tæpum tuttugu árum og var bara að opna kassann um daginn. En mér finnst það lágmark að maður eins og ég, sem hef veitt á flugu í yfir tuttugu ár kunni nú að hnýta þessar helstu flugur.“

Squirmy wormy loksins fáanleg

Af öðrum flugum sem Ólafur Tómas nefnir er lítill hvítur Nobbler fyrir sjósilung í göngu, Orange Nobbler til þess að leita að bleikju og urriða á fjöllum, Peacock fyrir þingvallableikjuna og síðan nýjasta leynivopnið, Squirmy Wormy. Sú fluga hefur verið í boxum okkar veiðifélaganna í nokkur ár og við höfðum hana fyrst um sinn með sem grín. En hún hefur síðan þá sýnt sig sem ein sú besta sem við notum við andstreymisveiðar, hvort sem er á urriða eða bleikju í ám. Þetta er eins konar flaksandi blóðormur en hefur verið mjög erfitt að fá hana hér á landi í þeim gæðum sem Ólafur Tómas kýs. „Nú er hún komin í Veiðihornið og er mjög flott, sú sem er í boði þar. Ég leita mikið til þeirra í Veiðihorninu með flugur sem ég þarf, enda er úrvalið mjög gott og alltaf að aukast. Ólafur og María eru líka alltaf til í að bæta við flugum ef maður er að leita að einhverju sérstöku sem og að þjónusta hjólin mín svo vel að ég er löngu hættur að fá aukahjartslátt þegar ég er kominn niður á undirlínu, eins lengi og ég veit að nýja línan var sett á hjá þeim.“

Fram undan eru fjölmargar spennandi veiðiferðir hjá snapparanum. Hann ætlar að bíða með upplýsa um þær, þar til þær birtast á Snapchatinu. Við fylgjumst spennt með.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert