Flottur gangur í Deildará

Annar skosku veiðimannanna með fallegan lax úr Deildará í gær.
Annar skosku veiðimannanna með fallegan lax úr Deildará í gær. Ljósmynd/Aðsend

Ágæt veiði hefur verið í Deildará á Sléttu það sem af er sumri og er heildarveiðin komin yfir veiðina síðastliðið sumar.

Að sögn Freys Guðmundssonar, leigutaka árinnar, eru tveir skoskir veiðimenn við veiðar í ánni þessa daganna og hafa þeir landað 20 löxum eftir rúmlega þriggja daga veiði.

Heildarveiðin í hádeginu stóð í 173 löxum og áin komin yfir veiði síðasta sumars þegar 163 laxar veiddust allt tímabilið. Veitt er á allt að þrjár stangir á dag fram til síðari hluta september.

Skotarnir veiddu meðal annars 95 cm lax í gærdag úr veiðistaðnum Holtunum sem er stærsti lax sumarsins úr ánni. Áætluðu Skotarnir að laxinn hafi verið um 9 kíló að þyngd. Fyrr í sumar höfðu veiðst tveir 92 cm laxar en gott hlutfall af stórlaxi mun vera í ánni.

Sagði Freyr að lokum að ágætur gangur hefði líka verið í Ormarsá sem þar er í næsta nágrenni og fyrir um viku voru komnir um 250 laxar þar í bók.

mbl.is