Stærsti birtingurinn 91 sentímetri

Valgarður Ragnarsson með flottan sjóbirting úr Húseyjarkvísl. Veiðin var góð …
Valgarður Ragnarsson með flottan sjóbirting úr Húseyjarkvísl. Veiðin var góð þar í opnun þrátt fyrir kalsaveður. Ljósmynd/Aðsend

Sjóbirtingsveiðin er víða góð þrátt fyrir kulda og rok. Tungulækur, Tungufljót og Húseyjarkvísl hafa samtals gefið um hundrað birtinga þessa fyrstu veiðidaga.

Opnunarhollið í Tungufljóti landaði tólf sjóbirtingum við erfið skilyrði. Bæði var leiðinda kalsaveður og töluvert ísrek og krapi í ánni. Þeir fiskar sem veiddust voru flestir í Syðri-Hólma og þar fyrir neðan.

Hörkuveiði er í Tungulæk, skammt frá Kirkjubæjarklaustri, og eru komnir í bók sextíu sjóbirtingar. Stærsti fiskurinn til þessa mældist 91 sentímetri og veiddist hann í Holunni. Þessi gerðarlegi hængur tók Undertaker númer tólf og var þetta á opnunardaginn. Þetta er jafnframt stærsti sjóbirtingur sem Sporðaköst hafa frétt af í opnun veiðitímans. Það er mikið um stóra birtinga í Tungulæk og hafa verið færðir til bókar átta fiskar sem eru áttatíu sentímetrar og lengri. Gjöfulustu veiðistaðirnir eru Gussi, Holan og Réttarhylur. Flugurnar Bleik og blá og Dýrbítur, svartur hafa gefið flesta fiska. 

Þorsteinn Guðmundsson og Ólafur Garðarsson með vel haldinn birting úr …
Þorsteinn Guðmundsson og Ólafur Garðarsson með vel haldinn birting úr Húseyjarkvísl. Ljósmynd/Aðsend

Það er svo sem ekkert nýtt að Tungulækur gefi góða veiði og án efa er þessi stutta á besta sjóbirtingssvæði á Íslandi, sérstaklega í ljósi þess hversu stutt hún er. Tungulækur fellur í Skaftá.

Húseyjarkvísl í Skagafirði er mögnuð sjóbirtingsá og hefur mannskapurinn sem þar er við veiðar ekki látið kulda og rok stöðva sig í veiðinni. Síðast þegar fréttist var búið að veiða þar um þrjátíu birtinga. Einnig var nokkuð um ágæta staðbundna urriða. Menn eru dúðaðir við veiðarnar en þegar hann tekur færist ylur um kroppinn og menn gleyma veðri.

Ýmsar útfærslur af Iðu hafa gefið bestu veiðina og Immubakki og Grófargil eru þeir veiðistaðir sem flestir fiskar hafa veiðst á.

Uppfært klukkan 20:37

Veiðisíðan votnogveidi.is greinir frá 93 sentímetra sjóbirtingi sem veiddist í Fossálum í opnun. Það er lengsti fiskurinn til þessa sem vitað er um.

mbl.is