Sonur laxahvíslarans kominn á blað

Andri Freyr með tuttugu pundaran eftir fjörutíu mínútna baráttu. Hann …
Andri Freyr með tuttugu pundaran eftir fjörutíu mínútna baráttu. Hann er sextán ára og hafði landað stærst 86 sentímetra fiski. Hann var afar ánægður. Ljósmynd/Björn K. Rúnarsson

Andri Freyr Björnsson, sextán ára sonur laxahvíslarans Björns K. Rúnarssonar, landaði í kvöld 98 sentímetra laxi úr Brúarfljóti í Álku, sem er hliðará Vatnsdalsár. Eftir að hafa skoðað myndirnar af fiskinum er það samdóma álit Björns og Sporðakasta að þessi lax sé tíu kíló, eða tuttugu pund.

Andri Freyr er heltekinn af veiðidellu og vinnur í sumar í Veiðiflugum á Langholtsvegi. Hann fór norður í Vatnsdal að veiða með pabba sínum og var að leita að þeim stóra eins og allir sem þangað koma.

„Pabbi var búinn að sjá stóran lax neðan við brúna yfir Álku. Þeir höfðu reynt við hann um morguninn en ekkert gerðist. Hann fór með mig þangað og lét mig kasta Green But-míkrókón. Í fyrsta rennsli var eins og hann yrði pirraður og svo eftir nokkur köst negldi hann fluguna,“ sagði Andri Freyr í samtali við Sporðaköst skömmu eftir að hann landaði laxinum. Þetta var mikil viðureign því laxinn strikaði upp ána og fór töluvert langt upp eftir. Andri Freyr fylgdi eins og hann gat en svo tók við reiptog.

Kominn nokkuð langt upp fyrir brú í Álku. Þetta voru …
Kominn nokkuð langt upp fyrir brú í Álku. Þetta voru tvísýn augnablik og hálfgert reiptog. Ljósmynd/Björn K. Rúnarsson

„Þetta voru einhverjar fjörutíu mínútur og svo þegar hann fór að þreytast sagði pabbi við mig að hann myndi fara niður. Það gerðist og hann rauk niður úr gljúfrinu og við lönduðum honum langt fyrir neðan Brúarfljótið,“ sagði afar kátur ungur veiðimaður í samtali við Sporðaköst.

„Ég var aldrei hræddur um að missa hann, vildi bara landa honum og þegar hann kom í háfinn þá öskraði pabbi jessssss og við gáfum hvor öðrum fimmu.“

Eins og sjá má á myndum af laxinum er hann ekta eintak úr húnvetnsku ánum. Þykkur og falleg skepna. Hann fékk að sjálfsögðu frelsi eftir að hafa hitt þá feðga.

Sporðaköst óska Andra Frey til hamingju með þennan glæsilega fisk.

Afar stoltur sonur laxahvíslarans, eins og Björn pabbi hans er …
Afar stoltur sonur laxahvíslarans, eins og Björn pabbi hans er oft kallaður enda landað mörgum löxum yfir 20 pund. Ljósmynd/Björn K. Rúnarsson



mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert