Þrír bræður fengu maríulaxinn

Askur Freyr Andrason með maríulaxinn í Tjarnarfljóti í Fitjá.
Askur Freyr Andrason með maríulaxinn í Tjarnarfljóti í Fitjá. Ljósmynd/Aðsend

Þrír bræður frá Akureyri voru við veiðar í Víðidalsá á dögunum og allir voru þeir svo heppnir að krækja í maríulax. Óðinn veiddi maríulax í Laxapolli „Ég var mjög stressaður yfir að hann myndi sleppa því að ég hafði misst lax í fyrra á silungasvæðinu í Víðidalsá,“ sagði Óðinn Andrason. Óðinn bætti svo um betur og veiddi 89 sentimetra hrygnu í Bug. „Laxinn lá í djúpri rennu neðan við sjálfan veiðistaðinn og okkur hefði ekki dottið í hug að kasta þarna nema vegna þess að leiðsögumaðurinn okkar, Stebbi Kristjáns, vissi að þarna leyndust stundum laxar þegar mikið vatn er í ánni. Þetta er mjög straumharður veiðistaður. Ég var með einhendu og ellefu punda taum þannig að þetta var æsispennandi viðureign og ég var orðinn dauðþreyttur í handleggnum af að togast á við laxinn.“

Ás Teitur Andrason með glæsilegan fisk úr Neðri-Valhyl.
Ás Teitur Andrason með glæsilegan fisk úr Neðri-Valhyl. Ljósmynd/Aðsend

Ás Teitur veiddi 77 sentimetra lax í Neðri-Valhyl. „Ég var með stóra tvíhendu en hins vegar lélegt hjól með nánast engri bremsu þannig að ég átti í heilmiklum erfiðleikum með að ráða við laxinn. Pabbi sagði mér að halda við jaðarinn á hjólinu en passa rosalega vel að halda ekki í sveifina þegar laxinn var að taka rokur og rífa línu út af hjólinu,“ sagði Ás í samtali við Sporðaköst.

Óðinn Andrason með 89 sentimetra fisk úr Bug í Fitjá.
Óðinn Andrason með 89 sentimetra fisk úr Bug í Fitjá. Ljósmynd/Aðsend

Þegar þarna var komið við sögu var komin veruleg pressa á síðasta bróðurinn, Ask Frey, að krækja í maríulax. Hann byrjaði á að missa lax eftir dágóða stund í Neðri Kæli en setti svo aftur í lax í Tjarnarfljóti. „Ég var mjög spenntur en viðureignin gekk vel því það er frekar rólegur straumur í þessum hyl. Þegar pabbi ætlaði að háfa laxinn þá vildi ekki betur til en svo að laxinn synti á milli fótanna á honum. Þetta fór samt allt vel að lokum og ég gat fagnað mínum fyrsta laxi og hann var 67 sentimetrar,“ sagði Askur Freyr.

Að sögn Jóhanns Hafnfjörðs, leigutaka Víðidalsár, hefur verið ágætisgangur í veiðinni undanfarna daga. Mikið er af vænum laxi í aflanum og um helgina veiddist 100 cm lax í hliðaránni Fitjá sem er óvenjulegt. Miklu algengara er að þeir allra stærstu haldi sig í aðalánni, Víðidalsá. Þá hafa einnig veiðst mjög stórir urriðar í neðri hluta Víðidalsár undanfarna daga. Margir á bilinu 5 til 8 pund og upp í 10 pund. Mikið vatn hefur verið í Víðidalsá og Fitjá í sumar en það er jákvætt fyrir Fitjá sem er venjulega frekar vatnslítil.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert