„Bleikjan tók á mígandi strippi“

Kristinn Þeyr Halldórsson með fallega bleikju úr Ármótum Brunnár og …
Kristinn Þeyr Halldórsson með fallega bleikju úr Ármótum Brunnár og Sandár. Þessi mældist sextíu sentímetrar. Ljósmynd/Aðsend

Opnunarhollið í Brunná í Öxarfirði fékk nánast vorblíðu og gerði góða veiði. Þetta voru fyrstu dagarnir áður en gerði aftur vetur. Kristinn Þeyr Halldórsson og nokkrir félagar opnuðu ána. „Við vorum að gera veiði á morgnana og svo aftur undir kvöld, í ljósaskiptunum. Yfir daginn var blíða. Stafalogn og sólskin,“ sagði Kristinn í samtali við Sporðaköst.

Öll veiðin, bæði birtingar og hlussubleikjur, tóku neðst í Brunnánni, við ármótin við Sandá, og einnig var fiskur neðan við ármótin. „Við fórum líka upp með Brunná og sáum fiska þar en þetta var svo bjart og glært að þeir tóku ekki.“

Kristinn segir að eftirminnilegasti fiskurinn hafi verið sextíu sentímetra bleikja sem tók risastóra Tinsel-flugu á mígandi strippi. Hann var með hægsökkvandi línu og bleikjan skellti sér á hana. „Við vorum með fimm bleikjur í aflanum. Tvær voru sléttir sextíu og þrjár sentímetrar. Mest var þetta birtingur en samtals var hollið með þrjátíu fiska,“ sagði Kristinn.

Þessi flotti urriði veiddist í Geitafellsá sem rennur í Langavatn …
Þessi flotti urriði veiddist í Geitafellsá sem rennur í Langavatn ofan við Mýrarkvísl. Ljósmynd/MÞH

Úr bongóblíðu í hríðarbyl

Skjótt skipast veður í lofti á þessum árstíma. Þeir félagar voru berir að ofan að „tana“ yfir miðjan daginn. Svo gerðist það hins vegar í gær að veiðimenn í Litluá í Kelduhverfi hættu veiðum snemma dags vegna snjóbyls og sá ekki á milli húsa. Enda er svo komið að Skjálftavatnið er nú aftur ísilagt eftir að hafa verið farið að þiðna.

En víðar gerðu menn góða veiði fyrir norðan þessa fyrstu blíðudaga aprílmánaðar. Matthías Þór Hákonarson, sem er með mörg svæði á leigu fyrir norðan, sagði í samtali við Sporðaköst að ágætisveiði hefði verið í Geitafellsá sem rennur í Langavatn fyrir ofan Mýrarkvísl. „Við fengum líka ágætis skot í Reykjadalsá, Mýrarkvíslina og Laxá áður en fraus.“

Valgarður með fallegan Skagfirðing. 73 sentímetrar. Þeir gerast ekki flottari …
Valgarður með fallegan Skagfirðing. 73 sentímetrar. Þeir gerast ekki flottari á vorin birtingarnir. Ljósmynd/Aðsend

Glæsilegur vorfiskur

Húseyjarkvísl er þekkt sjóbirtingsveiðiá í Skagafirði. Þar er búið að bóka 37 birtinga eftir fyrstu veiðidaga tímabilsins. Valgarður Ragnarsson leigutaki birti mynd af sér með 73 sentímetra sjóbirting sem hann veiddi í Immubakka. Birtingurinn tók Black Ghost og vekur athygli hversu vel haldinn fiskurinn er.  „Þeir geta verið fallegir í Skagafirðinum,“ sagði Valli um fiskinn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira