Milljónir Breta horfðu á Íslandsævintýri

Zoila og Robson veiddu lokahollið í Ytri-Rangá. Brjálað rok en …
Zoila og Robson veiddu lokahollið í Ytri-Rangá. Brjálað rok en mjög gaman, sagði Robson Green. Ljósmynd/Óli

Breski leikarinn Robson Green, sem leikur meðal annar í hinum vinsælu glæpaþáttum Grantchester sem sýndir eru á Stöð 2, var einn þeirra sem lokaði Ytri-Rangá á dögunum. Hann veiddi lokahollið ásamt vinkonu sinni Zoilu. „Þetta var svakalegt. Vindhraðinn var fimmtíu mílur á klukkustund, alla þessa daga sem við veiddum. Það varð smá veðurbreyting síðasta daginn. Þá gerði frost og mælir sýndi mínus fimm gráður,“ hló Robson í samtali við Sporðaköst.

Honum fannst mjög undarlegt að þetta mikla rok virtist vera bundið við Hellu og nágrenni. Hann fór í skoðunarferðir um Suðurlandið, skoðaði Vík og Selfoss og beggja vegna við var nánast logn. „Um leið og við komum aftur á Hellu var bara stormur. Það var mjög skrítið, eins og einhver hefði ýtt á takka.

Brosað upp í vindinn. Raunar segir Robson að neðri kjálkinn …
Brosað upp í vindinn. Raunar segir Robson að neðri kjálkinn á sér hafi verið orðinn dofinn og því sigið niður. Ljósmynd/RG

Ég náði ekki að landa fiski en setti í tvo stóra laxa og missti báða eftir nokkurn tíma. Það var búið að loka veiðihúsinu þannig að við gistum á Stracta hótelinu á Hellu.“ Robson gefur hótelinu afar góða umsögn og í raun ferðinni allri, þrátt fyrir erfitt veiðiveður. „Auðvitað hefði ég viljað koma fyrr í haust en það var ekki gerlegt sökum verkefna. Þetta var eina gatið sem ég hafði og nú er stefnan sett á  nýja sjónvarpsþáttaröð af Coast to coast.“

Hann hefur margsinnis veitt Ytri-Rangá og í síðustu Sporðakastaseríu landaði hann tveimur sextán punda löxum á stuttum tíma. En hann hefur aldrei veitt svona seint á veiðitímabilinu og var svo sem alveg undir það búinn að veðrið gæti verið allavega.

Þau Robson og Zoila gáfu sér tíma til að fara …
Þau Robson og Zoila gáfu sér tíma til að fara í skoðunarferðir. Hér eru þau við Seljalandsfoss. Þar var nánast logn. Ljósmynd/RG

Robson hlær að atviki sem átti sér stað á Rangárflúðum síðasta daginn. Hann og félagi hans Zoila voru að veiða flúðirnar í afleitu veðri. „Allt í einu mætti íslenskur veiðimaður og hann labbaði framhjá okkur og staðnæmdist alveg neðst í hylnum. Þar kastaði hann með einhendunni sinni einhverja þrjá fjóra metra og hélt svo flugunni bara þar. Eftir um tuttugu mínútur var hann búinn að landa fiski og þá fór hann.“ Robson fannst þetta afar fyndið þar sem hann stóð með stóru tvíhenduna og kastaði sífellt á hinn meinta tökustað.

Frá tökum á Robson and Jim´s Icelandic Fly-Fishing adventure. Hér …
Frá tökum á Robson and Jim´s Icelandic Fly-Fishing adventure. Hér eru þeir félagar með Ólafi Darra að kasta í Þingvallavatn. Þættirnir fengu góða dóma í Bretlandi. Ljósmynd/ES

Í sumar var sýnd þriggja þátta sjónvarpssería á bresku sjónvarpsstöðinni ITV. Þættirnir hétu Robson and Jim´s Icelandic Fly-Fishing adventure. Í þáttunum fóru Robson og félagi hans James Murray, sem einnig er breskur leikari um Ísland og veiddu á fjölmörgum stöðum. Við spurðum Robson um viðtökurnar sem sú sería fékk í Bretlandi í sumar.

Afar einbeittur veiðimaður. Robson setti í tvo stóra laxa en …
Afar einbeittur veiðimaður. Robson setti í tvo stóra laxa en missti þá báða. Ljósmynd/RG

„Við trúðum því varla en meira en fjórar milljónir Breta horfðu á þættina. Þegar horft er til þess að um sérhæft efni er að ræða þar sem veiði er umgjörðin þá telst það mjög mikið á breskan mælikvarða. Við fengum afar jákvæðar umsagnir frá áhorfendum. Það sem mér fannst merkilegt þegar ég var að skoða þær umsagnir að þættirnir minntu svo marga á hvernig árnar í Englandi og Skotlandi voru hér áður fyrr.“

Robson er afar sáttur við útkomuna á þáttunum og segir þá fara fljótlega í dreifingu í öðrum heimshlutum, bæði í Asíu og Suður-Ameríku. Hann og Murray stefna að því að taka upp þráðinn og gera aðra seríu sem líkast til verður tekin upp í Skotlandi og á Írlandi næsta sumar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira