Í aldarfjórðung á gólfinu

Veiðihjónin í Síðumúla hafa veitt um allan heim. Núna halda …
Veiðihjónin í Síðumúla hafa veitt um allan heim. Núna halda þau upp á tímamót. Aldarfjórðungur á gólfinu í Veiðihorninu. Ljósmynd/Veiðihornið

Veiðihjónin í Síðumúla, þau Óli og María fagna tímamótum. Í aldarfjórðung hafa þau staðið á gólfinu og afgreitt og þjónustað veiðimenn undir merkjum Veiðihornsins. Sumarið í sumar er þeirra 25. Í tilefni þessa settumst við niður með Ólafi Vigfússyni og tókum stöðuna með sumarið sem er mætt.

Óhætt er að fullyrða að veiðibúðir eru vettvangur þar sem miklar upplýsingar safnast saman. Bæði sögur af því sem gerðist og ekki síður er þar auðvelt að mæla væntingar veiðimanna. Hvernig líst Óla á veiðisumarið 2022?

„Við í Veiðihorninu erum full bjartsýni á veiðisumarið 2022.  Við segjum líka stundum í gríni að ef veiðimenn skorti bjartsýni eigi þeir að snúa sér að badminton með fullri virðingu fyrir þeirri góðu íþrótt. Í fullri alvöru erum við bjartsýn og bíðum spennt að sjá hverju næstu
stóru straumar skila í laxveiðinni.  Við erum þess fullviss að laxveiðisumarið verði ágætt og að við séum að stíga upp úr þeirri lægð sem við höfum verið í síðustu ár.
Hvað varðar silungsveiðina þá erum við jafnvel enn bjartsýnni því allur sá fjöldi veiðimanna sem við höfum hjálpað í búðinni síðustu daga og vikur hafa sagt okkur sögur og sýnt okkur myndir af vel höldnum bleikjum og urriðum í vötnum og ám.  Það þarf ekki annað en að skoða myndir sem hafa birst á hinum ýmsu vefsíðum síðustu vikur að fyllast bjartsýni því
svo spikaðir og vel haldnir eru þessir fiskar. Ég reikna með sólríku, hlýju og vatnslitlu sumri og því vil ég hvetja veiðimenn til að nota litlar flugur, eins langa tauma og þeir geta kastað og eins granna og þeir þora til þess að ná árangri.

Veiði, blað Veiðihornsins kemur nú út í ellefta sinn. Undirtitillinn …
Veiði, blað Veiðihornsins kemur nú út í ellefta sinn. Undirtitillinn vísar í þann aldarfjórðung sem þau hafa verið á gólfinu. Ljósmynd/Veiðihornið

Fyrir mína parta þá finnst mér skemmtilegast að veiða í krefjandi aðstæðum því þá reynir mest á hæfni og getu.  Það er ekkert mál að veiða helling af fiski þegar mikið er af tökufiski við kjöraðstæður en það reynir fyrst á veiðimenn þegar fiskar eru fáir og aðstæður erfiðar.  Það er langskemmtilegast að ná árangri við slíkar aðstæður.  Þó það sé ekki nema einn,“ sagði Ólafur.

Þau hjónin hafa í gegnum árin verið dugleg að fara á framandi slóðir í veiði. Hvort sem er í frumskóga eða fjarlægar strendur. Finnið þið fyrir auknum áhuga hjá Íslendingum að prófa slíka veiði?
„Já við höfum fengið sífellt fleiri fyrirspurnir um slíka veiði. Sumarið okkar er stutt og það verður komið haust áður en við vitum af. Því langar mig til að skora á íslenska veiðimenn að opna augun fyrir öllum þeim veiðimöguleikum sem bjóðast erlendis á veturna.  Heimurinn er stór og það eru fleiri fiskar en lax og silungur.  Veiði erlendis kemur ekki í staðinn fyrir veiði á Íslandi, heldur er veiði erlendis frábær viðbót sem víkkar veiðihug og skilning okkar.
Ekki skutla græjunum okkar í geymsluna á haustin.“

25 ár í atinu. Engin merki um þreytu?

Óli lítur upp og segir svo upprifinn; „Það skemmtilegasta og mest gefandi sem ég geri í lífinu er að hjálpa viðskiptavinum mínum, ekki síst þeim sem eru að byrja að veiða.“

Veiði að þessu sinni er 108 síður. Fróðleikur og upplýsingar …
Veiði að þessu sinni er 108 síður. Fróðleikur og upplýsingar í bland. Blaðið kom úr prentsmiðjunni í gær. Ljósmynd/Veiðihornið
Veiði, blað Veiðihornsins kom út nú um helgina. Ellefti árgangur og hnausþykkt af upplýsingum um vörur og veiði. Minnir ofurlítið á gömlu ABU bæklingana sem maður reif í sig í gamla daga. Undirtitill blaðsins er Í 25 ÁR og vísar í tímamótin. Manstu hvaða dagur var fyrsti dagurinn ykkar?
„Já. Fyrsti dagurinn á gólfinu var 7. febrúar 1998, á síðustu öld,“ segir Óli hugsi. Það hleypur í hann smá væmni. „Við erum ótrúlega þakklát þeim fjölmörgu frábæru starfsmönnum sem hafa starfað með okkur allan þennan tíma. Án þeirra væri Veiðihornið ekki það sem það er í dag.“

Óli segir að útgáfa blaðsins hafi tafðist aðeins að þessu sinni. Hann rekur ástæðurnar. „Mikil óvissa varðandi hvort og hvaða vörur myndu berast, mikil óvissa um verð, mörg ný vörumerki og nýjar vörur og síðast en ekki síst miklar annir nú í vor. Þetta hófst þó allt saman og blaðið er tilbúið, 108 síður að stærð og prentað á vandaðan, umhverfisvænan pappír. Við fullyrðum að blaðið okkar sé byltingarkennt að þessu sinni því það myndar brú yfir í nýja netverslun Veiðihornsins.  Á nánast öllum opnum eru “QR kóðar” sem flytja lesendur beint inn á vef Veiðihornsins til þess að sjá fleiri vörur og eða upplýsingar um vöru.“
Verðbólga og hækkanir á heimsvísu?
„Það er eitt sem við er um stolt af, en í níutíu prósent tilfella er verð óbreytt frá fyrra ári og jafnvel má sjá dæmi um verðlækkanir. Í allri umræðunni um verðbólgu og gegndarlausar verðhækkanir á innfluttum vörum tókst okkur þetta og erum stolt af. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við höldum aftur af verðhækkunum þó tilefni hafi gefist til.“

Við ræðum verðhækkanir á þessum aldarfjórðungi. Óli kemur með skemmtilegt dæmi.
„Þegar við byrjuðum, 1998 eða fyrir aldarfjórðungi seldum við tvær gerðir af vöðlum, hvort tveggja neoprene vöðlur.  Ocean neoprene vöðlur voru ódýrar og kostuðu 19.995 en dýru neoprene vöðlurnar voru frá Daiwa og kostuðu 22.995.  Í dag, aldarfjórðungi síðar kosta
neoprene vöðlur 22.995 í Veiðihorninu. Svo tala menn um dýrtíð, hlær Óli.

Óli og María er með sinn eigin „sumardaginn fyrsta“ ef svo má komast að orði. Þau blása til sumarhátíðar og stendur hún nú yfir í Veiðihorninu. „Er ekki tilvalið að halda hátíð þegar fyrstu laxveiðiárnar eru búnar að opna?“ spyr Óli. Ég teygi mig í aðra pylsu af grillinu og jánka því. 

„Við verðum aftur að í dag, sunnudag og þetta er svo mögnuð stemming. Margir byrjaðir að veiða. Sumarið að komast í fjórða gír og andrúmsloftið er einhvern veginn þrungið gleði og spennu. Við erum með veglegt happdrætti og það eru pylsur eins og ég sé að þú kannt að meta. Við grillum aftur í hádeginu og hjálpum öllum að komast fullgræjaðir í næsta veiðitúr.“ Óli er rokinn. Ég er skilinn eftir með spurninguna í höfðinu. Hvað ætli séu margar pylsur á mann?


Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Laxá í Dölum Stefán Sigurðsson 24. júní 24.6.
102 cm Laxá í Aðaldal Dagur Ólafsson 24. júní 24.6.
104 cm Þverá Snorri Arnar Viðarsson 15. júní 15.6.
105 cm Laxá í Leirársveit Pétur Óðinsson 13. júní 13.6.
Veiðiárið 2021:
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.

Skoða meira