Allt útlit er fyrir að breytingar verði gerðar á veiðifyrirkomulagi á grágæs. Óvíst er hvort slík breyting tekur gildi fyrir næsta veiðitímabil, sem hefst 20. ágúst. Engar breytingar hafa verið gerðar á yfirstandandi veiðitímabili og er heimillt að veiða gæs fram til 15. mars. Nokkurs misskilnings hefur gætt um að gerðar hafi verið breytingar á yfirstandandi veiðitímabili, en Bjarni Jónasson teymisstjóri veiðistjórnunar hjá Umhverfisstofnun staðfestir að svo sé ekki.
Megnið af grágæs yfirgefur Ísland yfir vetrartímann en þó hefur síðustu ár nokkuð verið um fugla sem dvelja hér lengur eða jafnvel allt árið. Lítið er hins vegar um að skotveiði sé stunduð á gæsum í byrjun árs. Bjarni segir að nú sé hafin vinna við að safna gögnum um hversu stórhluti af grágæs falli eftir áramót.
Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um verndun farfuglastofna eða AEWA. Í samningnum eru skilgreiningar um hvernig aðildarríki skulu bregðast við ef hætta er talin steðja að einstökum stofnum eða breytingar verða svo sem fækkun í stofni, eins og talningar benda til með grágæsina.
Grágæsastofninn sem verpir á Íslandi og hefur vetrarstöðvar á Bretlandseyjum og víðar, fellur undir þennan samning. Í ljósi fækkunar í stofninum hafa aðildarríki viljað færa grágæsina í nýjan flokk sem kallar á viðbrögð hér á landi og á Bretlandseyjum. Fulltrúar beggja landa óskuðu eftir að flokkunin yrði stjörnumerkt, eins og samningurinn leyfir. Það felur í sér að heimilt er að nýta stofninn og veiða úr honum. Það er þó háð þeim skilyrðum að stjórnunar- og verndaráætlun sé samþykkt fyrir viðkomandi stofn sem meðal annars tryggi sjálfbæra nýtingu.
Bjarni Jónasson teymisstjóri hjáUST sagði í samtali viðmbl.is að nokkurn tíma tæki að vinna slíka áætlun og þar af leiðandi væri ekki um að ræða breytingu á yfirstandandi veiðitímabili. „Það er hins vegar verið að skoða aðgerðir en þetta tekur allt tíma. Þar kemur til greina sölubann, eða breytt útfærsla á veiðitíma. Það er ráðuneytið sem vinnur það mál í samvinnu við Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og hagsmunaaðila og verður það væntanlega kynnt þegar niðurstaða liggur fyrir.“
AEWA samningurinn tekur til fjölmargra farfugla sem koma til Íslands árlega. Allt frá kríu til grágæsar en afar fáir fuglar af þeim sem falla undir samninginn eru veiddir á Íslandi.
AEWA samningurinn er 64 blaðsíður og einkar athyglisverð lesning, þar sem úir og grúir í skilgreiningum og marþættum verndarmarkmiðum þeirra fuglastofna sem undir hann falla. Þuldar eru upp fjölmargar ástæður og aðstæður þar sem tilefni getur orðið til að grípa inn í. Í samningnum kveðið á um hvernig fara skuli með ágreining og er að dómstóll i Haag sem á síðasta orðið ef ekki næst samkomulag.
Í AEWA samningnum eru þrír meginflokkar og undirflokkar og jafnvel undirflokkar undir þeim, þar sem skilgreind er staða stofna út frá ýmsum forsendum og hvort þeir séu í hættu eða til að hafa áhyggjur af. Flokkarnir eru einfaldlega kallaðir A, B og C.
A flokkurinn tekur til stofna sem ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af eða eru í mikilli hættu. B flokkurinn geymir stofna sem taldir eru ástæða til að fylgjast grannt með vegna ýmissa ástæðna og stofnstærðar. C flokkurinn er svo sá flokkur sem sterkir stofnar falla undir. Þar þykir ekki ástæða til að hafa áhyggjur en hvatt til samráðs þeirra ríkja þar sem stofnanir ýmist hafa vetrar– eða varpstöðvar.
Grágæsastofninn á Íslandi var í flokki B samkvæmt AEWA samningnum, undirflokki eitt. Þar er skilgreiningin, stofn sem telur 25 til 100 þúsund einstaklinga en er ekki talið ógnað með sama hætti og þeir stofnar sem falla undir A flokk.
Nú hefur þessu verið breytt og grágæsin er komin í flokk A, undirflokk 3. Þar er viðmiðið það sama og í B1 hvað varðar stofnstærð en stofninn talinn vera í hættu vegna fimm mögulegra atriða. Í fyrsta lagi að fuglinn safnist saman í miklu magni á fáa staði á einhverjum tíma árs. Að þau svæði sem fuglinn reiðir sig á kunni að vera í hættu. Að stofninn hafi um langt skeið verið hnignandi. Að stofnstærðin sveiflist mikið eða í fimmta lagi að skyndileg fækkun hafi orðið í stofninum.
Ljóst er að grágæs hefur fækkað á Íslandi síðustu ár. Stærstur var stofninn áætlaður 112 þúsund fuglar árið 2011. Undanfarin ár hefur stofnstærð verið metin í kringum 60 þúsund fuglar. Þessi hnignun hefur nú leitt til þess að grágæs er komin í sérstakan áhættuflokk og er nú á svipuðum stað og flamingóar þegar kemur að áhyggjum vísindamanna.
Á sama tíma er stofn heiðagæsa mjög sterkur og hefur verið vaxandi síðustu ár.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Lagarfljót | Jóhannes Sturlaugsson | 2. október 2.10. |
100 cm | Stóra - Laxá | Vigfús Björnsson | 30. september 30.9. |
102 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 19. september 19.9. |
103 cm | Víðidalsá | Rob Williams | 17. september 17.9. |
101 cm | Stóra - Laxá | Jim Ray | 16. september 16.9. |
102 cm | Víðidalsá | Svanur Gíslason | 15. september 15.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Stebbi Lísu | 14. september 14.9. |