Veiðimönnum létti stórlega við hlýindin

Harpa Hlín Þórðardóttir með fyrsta fisk tímabilsins úr Leirá, vorið …
Harpa Hlín Þórðardóttir með fyrsta fisk tímabilsins úr Leirá, vorið 2019. Aðstæður nú eru með allt öðrum hætti. Snjólaust en víða ís eftir langan frostakafla. mbl.is/Iceland Outfitters

Stangveiðitímabilið hefst formlega á morgun. Þá hefst vorveiði á sjóbirtingi í nokkuð mörgum ám og einnig opna fyrstu vötnin. Langvinnandi frostakafli nánast allan marsmánuð gerði það að verkum að ár lagði og ekki blés byrlega fyrir veiðimönnum sem ætluðu að opna þessi veiðisvæði.

En það hlýnaði í gær og stefnir í að flestar ár verði veiðanlegar þó að stöku veiðistaðir verði kannski með skörum og ís. Jón Hrafn Karlsson, einn af leigutökum Eldvatns í Meðallandi var á ferð fyrir austan í gær og sagði hann að mikill ís væri á Skaftá og Geirlandsá en hlýindin og rigning með þeim myndu án efa breyta stöðunni hratt. Tungulækurinn er að opna sig og Eldvatnið í toppmálum.

Forvitnilegt verður að sjá hvernig gengur í Leirá í Melasveit en þar hafa undanfarin ár verið stórir dagar í veiði fyrstu dagana. Sama ætti að vera uppi á teningnum þar hvað varðar aðstæður og ættu veiðimenn að geta veitt þessa litlu sjóbirtingsá á morgun.

Af öðrum ám má nefna Minnivallalæk og svo hafa veiðimenn í Ytri – Rangá oft gert góða veiði í upphafi vorveiðinnar.

Fyrir þá sem hafa hug á að fara í Vífilsstaðavatn er útlitið gott, allavega hvað varðar aðgengi að vatninu en það er að stórum hluta orðið íslaust og ættu veiðimenn að geta athafnað sig auðveldlega þar.

Ónafngreindur veiðimaður kom að máli við Sporðaköst í gær og lýsti mikilli gleði með að veiðitíminn væri loksins að renna upp. Og hvert ertu að fara að veiða? „Ég er ekki að fara neitt. Fer ekki fyrr en í sumar. Mér líður bara svo miklu betur að vita að ég get núna farið að veiða,“ sagði hann og brosti sínu breiðasta.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira