Volgt freyðivín og pappaglös en mokveiði

Gleðin var við völd í Slóveníuferð Barmanna og Dolly. Hér …
Gleðin var við völd í Slóveníuferð Barmanna og Dolly. Hér er hópurinn: Þórunn Auðunsdóttir, Harpa Pétursdóttir, Elva Guðrún Guðjónsdóttir, Sandra Sif Morthens, Kristín Klara Gretarsdóttir, Margrét Ágústa Sigurðardóttir, Sif Jóhannsdóttir, Halla Fróðadóttir, Anna Lea Friðriksdóttir, Berglind Rán Ólafsdóttir, Dögg Hjaltalín, María Hrund Marínósdóttir. Fyrir miðri mynd er svo Ingveldur Ásta Björnsdóttir. Ljósmynd/Dögg Hjaltalín

Veiðihóparnir Dolly og Barmarnir sameinuðust í ferð til Slóveníu til að veiða regnbogasilung og fleiri framandi tegundir, í byrjun mánaðar. Þessir hópar hafa áður í sameiningu lagt land undir fót og var þá Grænland áfangastaðurinn og rótaði hópurinn upp sjóbleikju þar. „Okkur finnst liggja nokkuð beint við að sameina krafta hópanna vegna þeirrar góðu tengingar sem nöfn þeirra bjóða upp á,“ sagði Dögg Hjaltalín í samtali við Sporðaköst og brosti sínu breiðasta. Fólk getur svo ráðið í tenginguna sem felst í nöfnum hópanna.

Þær héldu fjórtán í leiðangurinn og voru yfir sig spenntar. Vopnaðar fremur nettum græjum og voru stangir 4, 5 og 6 það sem hafði verið mælt með. Búið var að lofa góðri veiði og ekki síður veðri. Að vísu rigndi nokkuð en erfitt er að standa við veðurloforð en veiðin var virkilega góð.

Glæsilegur regnbogasilungur. Dögg Hjaltalín hlær af gleði. Eins og sjá …
Glæsilegur regnbogasilungur. Dögg Hjaltalín hlær af gleði. Eins og sjá má í bakgrunni er áin enn býsna skoluð en þær gerðu góða veiði með squirmy wormy. Ljósmynd/Anna Lea Friðriksdóttir



„Við Anna Lea Friðriksdóttir og Sandra Sif Morthens vorum saman í holli og veiddum einhverja nokkra tugi fiska, bæði stóra og smáa. Stærðin og baráttan í regnbogasilungnum kom á óvart en aðrir voru kannski engir risar en það var ótrúlega gaman að prófa mismunandi veiðiaðferðir og að veiða nýjar tegundir fiska á borð við grayling, sem reyndar voru líka nokkuð kraftmiklir miðað við stærð. Okkur fylgdi frábær leiðsögumaður, Mirko Skafar. Hann er mjög reyndur veiðimaður og hefur keppt á heimsmeistaramótinu í fluguveiði í nokkur skipti fyrir bæði Slóveníu og sem þjálfari írska landsliðsins. Hann kom okkur í fullt af fiskum, kenndi okkur mjög mikið og var hafsjór af fróðleik,“ upplýsir Dögg um hvernig gekk.

Hollið á góðri stundu þrátt fyrir úthellis rigningu. Anna Lea, …
Hollið á góðri stundu þrátt fyrir úthellis rigningu. Anna Lea, Dögg og Sandra Sif. Ljósmynd/Dögg Hjaltalín

Þær veiddu í mismunandi ám alla dagana. Fyrsta daginn lá leiðin þeirra í Sava Dolinka en áin var alveg í kakói fyrir hádegi eftir mikla úrkomu. Þær reyndu stuttlega bæði með púpur og svo straumflugur en gáfust fljótt upp á aðstæðum og skelltu sér í hádegismat.

Sandra Sif Morthens fékk þennan regnboga eftir að áin var …
Sandra Sif Morthens fékk þennan regnboga eftir að áin var aðeins farin að hreinsa sig. Ljósmynd/Dögg Hjaltalín

„Leiðsögumaðurinn vildi gefa ánni aðeins lengri tíma til að jafna sig þannig að við fórum á annað stað í ánni þar sem við prófuðum euro nymphing sem skilaði engu í það skiptið. Nú var áin þó farin aðeins að hreinsa sig og við héldum aftur á staðinn sem við byrjuðum á. Þar lentum við í mokveiði á regnbogasilung og fengum hvern á fætur öðrum á stuttum tíma. Við veiddum þá á púpur með tökuvara og stærðin á þeim var á bilinu 60–75 setímetrar. Það var góð barátta í þeim og það kom okkur á óvart hversu nálægt landi þeir lágu, oft nánast við fæturna á okkur. Köstin voru því ekki yfir á bakkann hinum megin eins og maður er oft að rembast við og trén sem umkringdu flestar árnar gerðu það að verkum að við komum allar heim með veltikastið upp á tíu. Regnbogasilungarnir féllu flestir fyrir gamla góða squirmy wormy með smá þyngingu. Þrátt fyrir að við hefðum mátt vera með þrjár stangir úti hverju sinni veiddum við bara á eina í einu, enda hluti af veiðinni að samfagna með makkerum sínum og vera tilbúin með háf, drykk, myndavél eða hvað annað sem kann að vanhaga um.“

Svo kom sólin. Þá hresstust allir enda hafði góðu veðri …
Svo kom sólin. Þá hresstust allir enda hafði góðu veðri verið lofað. Dögg búin að setja í góðan fisk. Ljósmynd/Sandra Sif

Dag tvö fór hópurinn í Idrijca-ána sem er hluti af mögnuðu landslagi. Dögg segir að áin sé talin ein af mest krefjandi ánum í Slóveníu.

„Við fengum hellidembu allan daginn, frá morgni til kvölds, en veiddum samt nær eingöngu á þurrflugu og með euro nymphing aðferðum. Tökuvarar eru bannaðir í Idrijca. Markmið flestra veiðimanna sem ána sækja heim er að eltast við marmarasilunginn og settum við í einhverja slíka en fengum samt aðallega urriða og svokallaðan „hybrid“ fisk sem eru blanda af marmarasilungi og urriða.“

Anna Lea Friðriksdóttir með grayling sem þær sögðu að væru …
Anna Lea Friðriksdóttir með grayling sem þær sögðu að væru sterkir fiskar miðað við stærð, en býsna framandi með þennan mikla bakugga. Ljósmynd/Dögg Hjaltalín

Þriðja daginn opnuðust himnarnir og sólin var ekki að spara sig. Þetta kunni hópurinn einstaklega vel að meta enda margir sóldýrkendur innan um. Unica–áin var vettvangur dagsins og þar var kastað fyrir urriða og grayling. Sá síðar nefndi er með stóran bakugga og minnti þær helst á flugfisk. „Þarna var mjög mikið magn fiski en við rákumst ekki á neina væna. Ekki á íslenskan mælikvarða, þann daginn en okkar leiðsögumaður var mjög ánægður með þessa stóru fiska, eins og hann kallaði þá.“ Hér glottir Dögg.

En hvernig var aðbúnaður og slíkt? 

„Við gistum á hóteli á í Ljubljana og var oftast töluverð keyrsla á veiðistaði sem hófst á góðu bensínstöðvastoppi þar sem við birgðum okkur upp af heitu freyðivíni og pappaglösum, gleðistundin í Slóveníu var nú ekki meira fansí en það.“ En þetta eru valkyrjur og þær létu sig hafa það. Dögg segir samdóma álit að þær eigi eftir að fara aftur á skagann, eða Balkanskagann til að veiða. Hún nefnir Bosníu sem mögulegan áfangastað síðar meir.

„Veðrið og verðið á þessari ferð var svipað og í laxveiði á Íslandi með ferðalaginu þangað en við fórum þessa ferð með Fly Fishing Agency. Ef við hefðum farið sjálfar út og keypt veiðileyfin beint af veiðileyfasölunum hefði það verið mjög hagstætt miðað við veiðileyfin hér heima en dýrasta veiðileyfið á stöng var 90 evrur og ódýrasta 30 evrur.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert