Gleðibomba með hvítu súkkulaðikremi

Vanilluterta með smjörkremi með hvítu súkkulaði. Lilja notar gjarnan matarlit …
Vanilluterta með smjörkremi með hvítu súkkulaði. Lilja notar gjarnan matarlit og sælgæti til að skreyta tertur. blaka.is / Lilja Katrín

Lilja Katrín Gunnarsdóttir gerði garðinn frægan fyrir skemmstu þegar hún stóð fyrir bökunarmaraþoni til styrktar Krafti. Þrátt fyrir að hafa bakað í rúman sólahring fyrir ekki svo löngu sér hún enga ástæðu til að leggja frá sér flórsykurinn og heldur ótrauð áfram í að baka nýjar og bragðgóðar bombur.

„Innblástur minn í bakstri kemur alls staðar að – hvort sem það er af netinu, í verslunum, í veislum eða bara þegar ég sé nýjan matarlit sem ég hef ekki séð áður og dauðlangar til að prófa. Svo sæki ég mikinn innblástur frá dóttur minni, Amelíu, sem er sex ára. Hún lumar á ansi skemmtilegum hugmyndum þegar kemur að kökubakstri og -skreytingum og oftast innihalda þær alls kyns dísæt og brjáluð hráefni. Svo finnst okkur tveimur einstaklega gaman að taka eitt kvöld í viku þar sem við förum snemma inn í rúm og liggjum eins og skötur að horfa á kökuskreytingarmyndbönd á YouTube. Það hefur kennt mér margt og er líka mjög skemmtilegur gæðatími sem við deilum saman,“ segir Lilja Katrín en fylgjast má með litríkum bakstri hennar á blaka.is.

Helgarbomban er því að þessu sinni ein af uppáhaldstertum Lilju en kökuna segir hún einfalda og bragðgóða.

Kökubotnar 

Hráefni: 

2 og 1/4 bolli hveiti
1 bolli nýmjólk
6 stórar eggjahvítur (við stofuhita)
2 tsk. vanilludropar
1 og 3/4 bolli sykur
4 tsk. lyftiduft
1 tsk. sjávarsalt
170 g mjúkt smjör

Aðferð: 

Hitið ofninn í 180° C og takið til 2 hringlaga form sem eru sirka 18 sentímetra stór. Ef þið notið minni form getið þið skorið botnana í miðju og fáið þá 4 botna. Ef þið notið stærri form verður kakan ekki eins há. Munið bara að smyrja formin vel með smjöri og dusta þau aðeins með hveiti.
Blandið mjólk, eggjahvítum og vanilludropum vel saman í lítilli skál og þeytið aðeins saman.
Blandið hveiti, sykri, lyftidufti og salti saman í stórri skál og bætið smjörinu saman við. Þeytið þar til blandan minnir á mulning.
Bætið mjólkurblöndunni varlega saman við og þeytið þar til allt er vel blandað saman.
Deilið deiginu í formin og bakið í 30-38 mínútur. Athugið, þessi bökunartími miðast við form sem eru 18 sentímetra stór. Bökunartíminn er lengri ef þið notið minni form og styttri ef þið notið stærri form. Leyfið kökubotnunum að kólna alveg áður en þið skreytið þá.

Innherjaupplýsingar: Það er auðveldara að setja krem á botnana og kökuna alla ef hún er vel köld. Ég mæli því með að stinga botnunum inn í frysti í sirka klukkutíma ef þið þurfið ekki að bera kökuna fram strax.

Viltu bæta smá gleði í kökubotnana? Bætið þá 1/2 - 1 bolla af kökuskrauti saman við deigið áður en þið bakið kökubotnana. Það kemur virkilega skemmtilega út og er tilvalið fyrir afmælisveisluna.

Hvítsúkkulaðikrem

Hráefni:

350 g mjúkt smjör
700 g flórsykur
2 tsk. vanilludropar
200 g brætt hvítt súkkulaði

Aðferð: 

Þeytið smjörið í 2-4 mínútur. Þetta skref er það mikilvægasta þegar kemur að öllum hefðbundnum, amerískum smjörkremum. Ef þið þeytið kremið verður smjörkremið mun léttara í sér og bragðbetra.

Bætið flórsykrinum saman við í hollum og hrærið vel saman. Bætið því næst vanilludropunum saman við.

Leyfið hvíta súkkulaðinu að kólna aðeins eftir að það hefur verið brætt og bætið því næst saman við. Ef ykkur finnst kremið of þykkt er hægt að bæta smá mjólk saman við en mín reynsla er sú að ef maður þeytir smjörið samviskusamlega þá verður smjörkremið í fullkominni þykkt og auðvelt að vinna með það í kökuskreytingum.

Þá er bara að gera allt vitlaust með kökusprautuna og skreyta að vild.

Ef þið eruð ekki hrifin af hvítu súkkulaði getið þið skipt því út fyrir:

  • 3-4 msk. af kakó og 1/2 bolla af þykkri karamellusósu (eða annað hvort)
  • 6-8 msk. af hlynsírópi
  • 1 pakka af Royal-búðingsdufti, til dæmis vanillu
  • 3-4 msk. kakó og nokkrar msk. sterkt kaffi (eftir smekk)
  • 3/4 bolli hnetusmjör
  • 3/4 bolli Nutella
  • börk og safa úr 1 sítrónu
  • börk og safa úr 1 límónu
börk og safa úr 1 appelsínu

Svo getið þið líka skipt vanilludropunum út fyrir piparmyntudropa og bætt smá kakói í uppskriftina – það svínvirkar!

Þær verða varla gleðilegri en þessi!
Þær verða varla gleðilegri en þessi! Blaka / Lilja Katrín
mbl.is