Plokkfiskur og meðlætið sem breytir lífi þínu

Salatið er reyndar í meirihluta hér en ég set alltaf …
Salatið er reyndar í meirihluta hér en ég set alltaf eina væna rúgbrauðssneið til hliðar, fisk ofan á og svo gúrkugleðina. mbl.is/TM

Plokkfiskur er herramannsmatur og mjög vinsæll í mötuneytinu hjá Árvakri sem á og rekur meðal annars mbl.is og Morgunblaðið. Kristófer Helgason kokkur er í guðatölu meðal starfsmanna en plokkfiskurinn hans er ákaflega góður.

Kristó eins og hann er kallaður var um tíma kokkur á sjó en þar skellti hann einhvern tímann súrum gúrkum á borðið með plokkfisknum og þá var ekki aftur snúið. Súrar gúrkur og plokkfiskur eru nefnilega guðdómleg blanda og í raun bylting í plokkfiskneyslu. Þið skiljið hvað við meinum þegar þið prófið þessa guðdómlegu blöndu.

Plokkfiskurinn sem blaðamenn elska

1-2 laukar
6 msk. smjör
4-5 msk. hveiti
3½ – 4 dl mjólk
1 tsk. hvítur pipar
½ tsk. svartur pipar
1 msk. aromat
1 tsk. karrý 
600 g soðin ýsa eða þorskur
300 g soðnar kartöflur í bitum
1 msk. bernaise-sósuduft

Saxið laukinn og steikið upp úr smjöri við miðlungsháan hita í potti þar til laukurinn verður glær. Setjið því næst soðnar kartöflur og krydd út á pönnuna (allt nema sósuduftið) og hrærið vel. Hellið mjólk út á pönnuna og sigtið hveiti út á pönnuna. Hrærið stöðugt á meðan og látið þykkna við vægan hita.

Látið sjóða við vægan hita um stund og hrærið í á meðan. Skerið soðinn fiskinn í bita og bætið þeim út í með sleif. 

Setjið fiskblönduna í eldfast mót. Setjið 1 msk. af sósuduftinu og 1 msk. af smjöri ofan á fiskinn og hrærið við með skeið. Bakið í 20 mínútur við 140° (helst 50% gufu ef ofninn býður upp á slíka stillingu). 

Berið fram með salati, rúgbrauði, smjöri, svörtum pipar og súrum gúrkum.
Hver hefði trúað því að plokkfiskur og súrar gúrkur væri …
Hver hefði trúað því að plokkfiskur og súrar gúrkur væri hin fullkomna eining. mbl.is/MT
mbl.is