Sælkerakjúklingur sem bræddi bragðlaukana
Þessi kjúklingaréttur er merkilega auðveldur enda fylgdist ég vel með þegar hann var gerður. Það eina sem til þurfti var að setja tvo kjúklinga á ofnplötu, skera niður grænmeti, skella á ofnplötuna ásamt kryddi og dálítið vel af smjöri og voila! Hreinræktað kraftaverk.
Flóknari var máltíðin ekki þetta kvöldið enda algjör mánudagur í mönnum. Engu að síður rosalega góður réttur og ég held því fram að kryddblandan hafi tekið hann upp á næsta stig.
Undirbúningurinn tók um það bil átta mínútur og svo var bara að láta kjúkinginn eldast á 170 gráðum í 100-110 mínútur.
Mér fannst einstaklega snjallt að elda tvo kjúklinga í einu þar sem afgangurinn nýtist næstu daga. Það vill jafnframt svo skemmtilega til að verið er að passa mataræðið sérlega vel á heimilinu þessa dagana þannig að kjúklingurinn smellpassaði inn í það prógramm.
Sælkerakjúklingur sem bræddi bragðlaukana
- 1-2 kjúklingar
- 1 stór sætkartafla
- 1 rauðlaukur
- 2 sítrónur
- 4 stilkar rósmarín
- smjör
- kjúklingakrydd
- salt og pipar
Aðferð:
- Setjið kjúklinginn í ofnskúffu eða eldfast mót. Kryddið vel.
- Skerið sætkartöflur í grófa bita og lauk í þunnar sneiðar. Saxið rósmarínið og sneiðið sítrónurnar.
- Setjið kartöflur og lauk allt í kringum kjúklinginn og sáldrið rósmaríni yfir. Raðið sítrónum á kjúklinginn. Kryddið með salti og pipar. Setjið nokkrar vænar klípur af smjöri yfir grænmetið og inn í ofn á 170 gráður í 100-110 mínútur.