Kakan náskyld uppáhaldsköku drottningar

mbl.is/Svava Gunnarsdóttir

Silvía Svíadrottning á sér uppáhaldsköku sem Svava Gunnarsdóttir kallar Silvíuköku. Hvort Svava beri ábyrgð á nafngiftinni skal ósagt látið en kakan er ein sú allra vinsælasta á bloggi Svövu, Ljúfmeti og lekkerheit. Hún segir að kakan sé í miklu uppáhaldi hjá sér og hún hendi oft í hana þegar óvænta gesti beri að garði enda sérlega fljótleg. 

Svava tók sig til á dögunum og betrumbætti Silvíukökuna með einföldum en áhrifaríkum hætti. Nýju útgáfuna kallar hún Svíþjóðarkökuna sem okkur finnst sérlega viðeigndi enda sænsk að uppruna. Um kökuna hafði Svava þetta að segja:

„Um daginn bakaði ég köku sem minnti svolítið á Silvíukökuna nema í þessari er botninn klofinn í tvennt og vanillusmjörfylling sett á milli, sem botninn sýgur í sig og gerir hann dásamlega góðan.“

Svíþjóðarkaka

  • 3 egg
  • 3 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 dl sjóðandi vatn

Fylling:

  • 100 g smjör
  • 1 dl mjólk
  • 3 msk. vanillusykur

Hitið ofn í 175°. Klæðið botn á kökuformi með smjörpappír og smyrjið hliðarnar.

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin mjög létt í sér og ljós. Blandið hveiti og lyftidufti saman við með sleikju. Hellið sjóðandi vatni saman við og hrærið saman í slétt deig.

Setjið deigið í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í um 30-35 mínútur. Kakan á að vera þurr þegar prjóni er stungið í hana.

Fylling: Hitið mjólk og smjör að suðu og hrærið vanillusykri saman við þar til blandan er slétt.

Látið kökuna kólna. Kljúfið hana svo í tvennt, þannig að það sé botn og lok. Hellið mjólkurblöndunni yfir botninn, hellið varlega þannig að kakan nái að sjúga í sig vökvann. Setjið síðan lokið yfir og sigtið flórsykur yfir kökuna.

Sérlega fljótleg og bragðgóð.
Sérlega fljótleg og bragðgóð. mbl.is/Svava Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert