Galdurinn við gott kaffi

Chemex kaffikaraflan þykir góð til uppáhellinga.
Chemex kaffikaraflan þykir góð til uppáhellinga. mbl.is/Pinterest

Góður kaffibolli í morgunsárið getur komið manni í gírinn til að takast á við daginn. Á meðan sumir treysta á kaffihús bæjarins til að fá sopa af þessum lífsvökva árla morguns, þá finnst öðrum best að laga sitt kaffi í rólegheitum heima. Sumum finnst það meira að segja jafnast á við góða hugleiðslu að bauka við uppáhellingu í eldhúsinu. Við spurðum kaffifróða hvað það væri sem gerði kaffi að góðu kaffi og voru flestir sammála um að atriðin talin upp hér að neðan væru vænleg til vinnings og tækju kaffibrasið upp á næsta stig:

  • Hitaðu kaffibollann með því að láta heitt vatn standa í honum góða stund, það heldur kaffinu heitu og þá er hægt að njóta þess lengur.
  • Notaðu ferskar, nýmalaðar kaffibaunir. Þegar kaffi er búið að sitja lengi í opnum poka, orðið gamalt og staðið, þá tapar það bæði ilmi og bragði. Til að góða bragðið gufi hreinlega ekki upp úr baununum er mælt með því að nota kaffibaunir innan við mánuði frá því að þær voru ristaðar. Oft má finna dagsetningu ristunar stimplaða á pokann.
  • Geymdu kaffibaunir í loftþéttum umbúðum og alls ekki frysta kaffið. Það geymist best við stofuhita. Ekki er heldur mælt með því að geyma kaffi í ísskáp, nema þá í lofttæmdum umbúðum. Rakinn úr baununum getur gufað upp og þar að auki taka þær víst auðveldlega í sig bragð af öðru í ísskápnum og hver vill kaffi með skinkubragði?
  • Best er að mala baunirnar rétt áður en hellt er uppá. Það þarf ekki að kosta augun úr að kaupa góða kaffikvörn, þær fást víða og margar hverjar á góðu verði. Fróðir segja að kaffi missi bragð og ilm fljótlega eftir að það er malað, og er það víst mínútuspursmál, svo ekki er mælt með því að mala það úti í búð og taka með heim til geymslu.
  • Malaðu kaffibaunirnar þar til þær eru eins og fínn sandur. Hitaðu vatnið upp að 90 gráðum. En hafið í huga að ef vatnið er of heitt þá getur kaffið orðið rammt á bragðið.
  • Sumir mæla með því að skola kaffifilterinn með vatni áður en hann er notaður því annars finnist keimur af pappabragði, en þetta ráð er líklegast fyrir þá með þróaðri bragðlauka.
  • Alvöru kaffiáhugamenn og konur nota margir hverjir svokallaða „pour over method“ eða „paper drip“ aðferð þegar laga á kaffi. Þá er hellt upp á kaffi í karöflu eða beint í bollann í gegnum trekt með kaffifilter. Ef hella á beint í bollann nota margir Hario V60 græju. Aðrir nota Chemex kaffikönnuna góðu við þá uppáhellingu, en sú íkonaíska kaffikarafla hefur prýtt mörg eldhúsin í gegnum tíðina og þykir í meira lagi fín.
  • Þegar þú hellir vatninu yfir kaffið, leyfðu kaffinu að búbbla og freyða. Kaffið freyðir víst þegar losnar um koltvísýring úr baununum. Hægt er að sjá hvort kaffið er ferskt ef það freyðir, ef ekkert gerist þá ertu líklegast með of gamalt kaffi. Bíddu í um 45 sekúndur á meðan kaffið freyðir og helltu svo restinni af vatninu rólega yfir nýmalað kaffið í litlum skömmtum. Ef þú hellir of hratt og of miklu vatni í einu þá verður kaffið ekki eins bragðmikið.
  • Fólk hefur svo að sjálfsögðu misunandi smekk og bragðskyn og er því um að gera að prófa sig áfram með mismunandi kaffitegundir og aðferðir til að finna hvað hentar best.
mbl.is