Dijon-sinnep - hver er galdurinn?

Hið heimsfræga Dijon-sinnep er gullinbrúnt á litinn.
Hið heimsfræga Dijon-sinnep er gullinbrúnt á litinn.

Ein af þekktari afurðum Frakklands er hið bragðmikla og æsispennandi sinnep sem í daglegu tali kallast Dijon-sinnep. Flest eigum við krukku eða tvær í ísskápnum, sumir komast vart í gegnum máltíð án þess en hvað er eiginlega svona merkilegt við þetta bragðsterka sinnep?

Sinnepið er skírt í höfuðið á bænum Dijon í Búrgúndíhéraði í Frakklandi en þar sló hjarta sinnepsframleiðslunnar í Frakklandi á miðöldum. Sinnepið var fyrst notað árið 1336 en sló í gegn árið 1856 þegar Jean Naigeon frá Dijon skipti út ediki fyrir vínberjasafa, sem gerður var úr óþroskuðum vínberjum og því afar súr. 

Dijon-sinnep er ákaflega vinsælt um heim allan og Dijonaise er jafnframt að verða nokkuð vinsælt en þá er sinnepinu blandað saman við majónes. 

Hægt er að gera sitt eigið sinnep en uppskriftin er svohljóðandi: 

Heimagert Dijon-sinnep

  • 1 1/2 bolli hvítvín
  • 1/2 bolli hvítvínsedik
  • 1 bolli vatn
  • 1 laukur, saxaður
  • 2 hvítlauksgeirar, maukaðir
  • 1 bolli gul sinnepsfræ
  • 1/4 bolli sinnepsduft
  • 1 msk. hvítlauksduft
  • 1 tsk. salt

Aðferð:

Setjið hvítvín, vatn, lauk og hvítlauk í pott. Látið suðuna koma upp,  lækkið undir og látið malla í 10 mínútur. Takið af hellunni og kælið að stofuhita. Síið blönduna í gegnum fínt sigti og pressið laukinn og hvítlaukinn vel til að ná öllum vökvanum. Hendið lauknum og hvítlauknum. 

Blandið vökvanum saman við sinnepsfræin, sinnepskryddið, hvítlauksduftið og salt í stóra krukku. Látið standa við stofuhita í 24-28 klukkustundir. 

Hellið blöndunni í blandara og maukið uns áferðin er orðin kremkennd. Setjið þá í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið undir og látið malla uns blandan er orðin svo þykk að enn er hægt að hella henni en naumlega þó, eða í 10 mínútur.  

Þegar sinnepið er sett í krukkur skal gæta þess vel að ekki séu loftbólur í sinnepinu. Geymið krukkurnar á köldum stað en það geymist í allt að þrjá mánuði. 

Arnaldur Halldórsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert