Leyndarmálið á bak við jólasíldina

mbl.is/

Síld er ómissandi hluti af jólahaldinu en það eru fáir sem vita hversu langt og strangt vinnsluferli liggur að baki vel heppnaðri síld. 

Gott dæmi um þetta er síldin frá ORA sem er unnin úr hágæðahráefni frá Fáskrúðsfirði. Þar er henni pakkað á tunnur eftir nokkurra daga verkun í salt- og ediklegi. Tunnurnar eru síðan fluttar til framleiðandans þar sem þær eru geymdar við hárrétt hitastig í nokkra mánuði áður en hún er tilbúin til frekari vinnslu. Þetta er eitt af því sem gerir ORA-síldina að svo mikilli gæðavöru og ólíka erlendri síld sem unnin er úr frystu hráefni. Söltun á fersku hráefni og langur verkunartími er lykillinn að góðri útkomu og að hún er aldrei fryst eða meðhöndluð að öðru leyti en því sem stuðlar að sem bestri útkomu.

Síldin er síðan unnin eftir kúnstarinnar reglum og ferlinu er stýrt af sérfræðingi ORA, Einari Þór Lárussyni niðursuðufræðingi og fisktækni. Vinnsluferlið tekur marga daga frá því tunnurnar eru tilbúnar en á bak við það eru framleiðsluleyndarmál ORA.

„Síldin er ansi áhugaverð framleiðsla og það er ekki sama hvernig að henni er staðið. Tækninni fleygir fram og bæði hafa vinnsluaðferðir og innihaldsefni tekið framförum á síðustu árum. Það eru svona „nördar“ eins og ég sem fylgjast grannt með þessu og það hefur verið gaman að innleiða þessar nýjungar hjá ORA á síðustu árum,” segir Einar Þór.

„Það sem er skemmtilegt við síldina eins og þekkist með góð vín er að hráefnið er náttúrulegt og er hún því aldrei nákvæmlega eins á milli ára þó að uppskriftirnar haldist þær sömu. Við erum mjög ánægð með síldina núna fyrir jólin og teljum 2018 vera mjög góðan árgang og ætti að gleðja marga á hátíðarborðum landans.“

Í jólasíldinni má finna keim af berjum, kanel og negulnöglum og í glerkrúsirnar er einnig lagður laukur, lárviðarlauf, rósapipar og trönuber til að undirstrika rétta jólabragðið. Einar Þór á heiðurinn að þessari uppskrift sem hefur slegið í gegn og er nú hin eina sanna Jólauppskrift Ora og er haldið óbreyttri á milli ára.

Hátíðarsíldin er lögð í sólberjalög og eru sólberin það sem gera hátíðarbragðið og löginn sem mörgum finnst svo fallegur og hátíðlegur á litinn. Síldin er lögð í glerkrús ásamt lauk, sinnepskornum, dilli, einiberjum og fleira góðgæti sem saman gerir gómsæta bragðið af hátíðarsíldinni. Báðum tegundum er pakkað í höndunum og gætt að því að innihald sé rétt í hverri krukku.

mbl.is/ORA
mbl.is/ORA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert