Viðskiptavinur átti hugmyndina að nýja Hrauninu

Hraun fæst nú í nýrri útgáfu með 56% dökku súkkulaði. Varan kallast Dökkt Hraun og það var viðskiptavinur sem átti hugmyndina að því að sögn Helga Vilhjálmssonar í Góu, sem framleiðir súkkulaðið.

„Það hringdi í mig kona fyrir nokkru síðan og sagði mér að það þyrfti að búa til dökka Hraunbita. Ég hugsaði málið og við gerðum prufu sem virkaði vel. Ég hafði svo samband við konuna og gaf henni nokkra bita. Hún hélt síðan kaffiboð og bauð upp á bitana sem féllu líka svona vel í kramið. Við ákváðum því að prufa þessa útgáfu af Hrauni á markaðnum, fyrst í bitum og núna er það komið í sérpakkað stykki. Það er stundum gott að hlusta á viðskiptavinina, því fólk virðist elska dökka Hraunið ekkert síður en það upprunalega,“ segir Helgi.

Nýja Hraunið er með 56% dökku súkkulaði, að sögn Helga og sérpökkuðu stykkin eru nú þegar komin í verslanir. Hið hefðbundna Hraun kom fyrst á markað snemma á áttunda áratugnum og hefur verið vinsælt allar götur síðan.

„Það þarf alltaf að vera að prófa eitthvað nýtt. En svo þarf líka að hlúa að þessu gamla,“ bætir Helgi við en Góa hefur undanfarna mánuði fagnað 50 ára afmæli fyrirtækisins með ýmsum nýjungum ásamt því að rekja brot úr sögu fyrirtækisins þegar færi gefst að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert