Eiga plönturnar þínar erfitt með að halda lífi?

Hvernig líður plöntunum þínum?
Hvernig líður plöntunum þínum? mbl.is/Greenify

Kannastu við eftirfarandi: Blöðin á plöntunum þínum eru orðin brún og kantarnir gulir? Þá þurfum við að tala saman.

Við eigum það til að vanrækja eða kæfa „grænu börnin“ okkar í kærleika, svo mikið að þau veslast upp og deyja – og hálfdauð planta er ekki að fara gera neitt fyrir mynd sem við birtum á samfélagsmiðlum og stærum okkur af heimilinu. Það er alltaf best að velja plöntur á heimilið sem passa, þá hugsað út frá raka, hitastigi og birtu.

Of mikið eða of lítið af kærleika
Við eigum það til að vökva of lítið eða of mikið, sem leiðir til þess að plantan deyr. Sumir vilja meina að plöntur þurfi minna vatn yfir vetrartímann en það fer allt eftir hversu þurrt loftið er í íbúðinni. Best er að fá ráðleggingar hjá blómasalanum hversu oft og mikið þarf að vökva og jafnvel kaupa lítinn rakamæli sem stungið er í moldina.

Birtan skiptir máli
Þvi miður hafa sumar plöntur upplifað dramatískan dauðdaga úti í glugga þar sem þær bakast í sólinni sem skín inn, sérstaklega þeim sem snúa í suðurátt. Flestar plöntur vilja birtu án þess að liggja í sólbaði fyrir utan kaktusa sem þrífast mjög vel í slíku umhverfi. Suðrænar plöntur vilja bjart og rakt umhverfi en standa hér á landi oft í dimmum og þurrum rýmum. Því er gott að leggja þær annað slagið undir sturtuhausinn eða sprauta á þær vatni.

Næring
Frá apríl til september er mikill vöxtur hjá grænblöðungum og því mikilvægt að plönturnar fái góða næringu. Yfir vetrartímann líta þær oft soldið þreyttar út en það þýðir samt ekki að þær líði næringarskort, þær liggja bara í hálfgerðum dvala.

Kuldi og gegnumtrekkur
Í mörgum tilfellum getur stofuplanta ekki þrifist í hitastigi undir 10-15 gráðum. Ef þær lenda í gegnumtrekk eða eru fluttar út í mikið frost af heimilinu geta þær fengið sjokk. Athugið því vel hvar þið staðsetjið plönturnar.

Blómapottar
Blómapottar geta verið eins flottir og plönturnar sjálfar en það skiptir máli hvernig pott þú velur fyrir plöntuna. Mælt er með að velja pott með gati í botninum, þannig getur vatnið lekið niður í undirskálina ef þú vökvar of mikið. Það er einnig erfiðara fyrir rætur blómsins að anda þegar þær eru í lokuðum pottum en þá eru til aðrar lausnir sem hægt er að setja í botninn, eins og litla steina. Eins er nauðsynlegt að velja blómapott sem er stærri en potturinn sem plantan kom í, því við verðum að gefa henni rými til að vaxa og dafna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert