Brioche-brauð með súkkulaðifyllingu

Fléttað súkkulaðibrauð af bestu gerð.
Fléttað súkkulaðibrauð af bestu gerð. mbl.is/Chris Tonnesen

Ef þú vilt bæta í heimilisilminn þá mælum við með þessu yndisaukandi brauði – fléttuðu með súkkulaðifyllingu. Létt og ljúffengt brioche-deig og súkkulaði er skotheld bomba með nýmöluðu kaffi.

Brauðið kallast upprunalega „babka“ sem þýðir „amma“ og kemur upphaflega frá Austur-Evrópu, en það voru innflytjendur sem bera ábyrgðina á að flytja uppskriftina til Ameríku þar sem það varð vinsælt og dreifðist víðs vegar um heiminn.

Yndisaukandi brauð fléttað með súkkulaðifyllingu

 • 1½ dl mjólk
 • 25 g ger
 • 3 msk. sykur
 • 1 egg
 • 2 eggjarauður
 • 400 g hveiti
 • ½ tsk. salt
 • 100 g mjúkt smjör

Súkkulaðifylling:

 • 80 g mjúkt smjör
 • 100 g flórsykur
 • 2 msk. púðursykur
 • 4 msk. kakó
 • 100 g súkkulaði
 • 1 tsk. kanill

Aðferð:

 1. Takið fram bökunarform, sirka 26x11 cm. Klæðið það með bökunarpappír og smyrjið að innan.
 2. Hitið mjólkina volga og bætið geri og sykri út í. Hrærið gerið út í mjólkina og hellið yfir í hrærivélaskál.
 3. Bætið eggi, eggjarauðum, salti og hveiti út í og blandið saman á lágum hraða.
 4. Bætið smjörinu út í í litlum bitum. Hnoðið í hrærivélaskálinni á miðlungshraða þar til deigið er mjúkt. Deigið mun vera klístrað í upphafi en eftir sirka 10 mínútna hnoð mun það taka sig.
 5. Stráið hveiti á borðið og leggið deigið á borðið. Hnoðið það örlítið á borðinu og formið í kúlu. Setjið deigið í skál með hreinu viskastykki yfir. Látið hefast í 2 tíma þar til það hefur náð að tvöfalda sig. Setjið þá skálina í kæli í 45 mínútur. Búið til súkkulaðifyllinguna á meðan.
 6. Fletjið deigið út á borðinu með smávegis af hveiti og myndið stóran ferning, 50x30 cm. Smyrjið fyllingunni yfir flötinn.
 7. Rúllið deiginu þétt upp eins og rúllutertu. Skerið í gegnum hana endilanga með hníf og leyfið helmingunum að liggja saman.
 8. Takið helmingana og snúið þeim saman, mest 3-4 sinnum, og setjið deigið í brauðformið. Látið hefast í 30 mínútur.
 9. Stillið ofninn á 180°C og bakiðí 50-60 mínútur.

Súkkulaðifylling:

 1. Setjið öll hráefnin saman í pott og hitið á lágum hita. Látið kólna aðeins áður en hún er smurð á deigið. 
mbl.is