Spargelzeit á Kröst

Böðvar Darri Lemacks á Kröst.
Böðvar Darri Lemacks á Kröst. Ásdís Ásgeirsdóttir

Uppskeruhátíðir eru almennt haldnar á haustin, en á því eru undantekningar. Uppskerutíminn á hvítum aspas í Þýskalandi er frá miðjum apríl fram í júnílok og er þessi aspastími (Spargelzeit) mikilvægur póstur í þýska matardagatalinu. Þjóðverjar borða gríðarlegt magn af hvítum aspas árlega, eða um 70.000 tonn, og fer sú neysla nær öll fram á þessu tímabili.

Aspasinn á sér eldheita aðdáendur sem bíða í ofvæni eftir fyrstu uppskerunni og eiga jafnvel sérstök eldunartæki til að geta sýnt grænmetinu tilhlýðilega virðingu. Aspas er ræktaður í öllum sambandsríkjum Þýskalands og víða eru skipulagðar ferðir um aspasekrur og haldnar aspashátíðir að vori til. Í Nord Rhein Westfalen liggur svokallaður aspasvegur (Spargelstrasse) frá Bonn í suðri til Bielefeld í norðri. Hundruð bænda við veginn selja aspas beint af býli eða til veitingastaða í héraði.

Ekki er nokkur vafi að aspasinn á þessa virðingu skilda, því ekkert jafnast á við margslunginn og fíngerðan bragðprófílinn á rétt elduðum hvítum aspas. Sumir þýskir veitingastaðir gefa út sérstaka tímabundna matseðla, þar sem ekki er boðið upp á annað en hvítan aspas.

Veitingastaðurinn Kröst á Hlemmi Mathöll mun nú fylgja þessu fordæmi annað árið í röð og bjóða upp á nýjan og spennandi Spargelzeit matseðil frá og með 27. apríl næstkomandi. Nýuppteknum hvítum aspas verður flogið til landsins frá Nord Rhein Westfalen í Þýskalandi svo hann verði sem ferskastur þegar gestir Kröst gæða sér á honum. Aspasinn verður í aðalhlutverki á matseðlinum með sérstaklega pöruðu þýsku gæðavíni. Þessi matseðill verður í boði frá meðan á Spargelzeit stendur og birgðir endast, að því fram kemur í fréttatilkynningu.

mbl.is/Gunnar Konráðsson
mbl.is