Hinn fullkomni kúskúsréttur

Ekta matur á ljúfum sumardögum.
Ekta matur á ljúfum sumardögum. mbl.is/Mydailyspace.dk

Á ljúfum sumardögum langar okkur ekkert alltaf í þungan grillmat eða að standa yfir pottunum allt kvöldið. Þá er léttur kúskúsréttur akkúrat það sem þú þarfnast með sætum kartöflum og feta.

Vissir þú að sætar kartöflur eru eitt elsta grænmeti í heiminum og fundust í 10 þúsund ára gömlum perúskum hellum? Sætar kartöflur eru þó í raun ekki kartöflur heldur rótargrænmeti, merkilegt nokk.

Léttur kúskúsréttur á ljúfum sumardegi

 • ferskt spínat eftir þörfum
 • 1 rauðlaukur
 • fetakubbur
 • 1 askja kirsuberjatómatar
 • 300-500 g sætar kartöflur
 • graskerskjarnar
 • safi úr 1 límónu
 • 200 g kúskús

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°. Skerið kartöflurnar í teninga og veltið þeim upp úr olíu, salti og pipar. Setjið inn í ofn í 20 mínútur.
 2. Sjóðið kúskúsið samkvæmt leiðbeiningum og leggið svo álpappír yfir pottinn og látið standa í 5 mínútur.
 3. Skerið lauk, fetakubb og tómata.
 4. Hellið límónusafa yfir kúskúsið og blandið saman við laukinn, fetakubbinn, tómatana og spínatið.
 5. Blandið loks sætu kartöflunum saman við og stráið graskerskjörnum á toppinn.
mbl.is