Skotheld Quiche Lorraine

mbl.is/Hanna

Ég veit ekki með ykkur en ég er með sérstakt dálæti á frönskum bökum eins og þessari Quiche Lorraine. Uppskriftin kemur úr smiðju Hönnu sem segir hana koma alla leið frá Frakklandi með krókaleiðum þó.

Matarbloggið hennar Hönnu er hægt að nálgast HÉR.

„Mér fannst bakan mjög góð og var svo heppin að fá uppskriftina. Skellti í eina böku heima og féll hún heldur betur vel í kramið. Hún þótti svo góð að unga fólkið á heimilinu tók með sér sneiðar í nesti daginn eftir. Ég hef oftar en einu sinni tekið með mér sneið í flug ásamt fersku salati og hef klárlega verið með besta matinn um borð,“ segir Hanna um bökuna.

Quiche Lorraine - frönsk baka

Botn (pate brisee)

  • 2 bollar hveiti
  • 1 tsk. salt
  • 70 g smjör (6 msk.) – við stofuhita
  • 5 msk. vatn

Fylling

  • 180 g beikon (1 beikonbréf)
  • Ostaneiðar
  • 4 egg
  • 2 bollar rjómi eða matreiðslurjómi (má einnig nota sýrðan rjóma þynntan með mjólk)
  • 1 msk. hveiti
  • Salt
  • ¼ tsk. múskat
  • Cayenne-pipar á hnífsoddi
  • Hvítur pipar

Botn

  1. Hveiti sett í skál. Smjör sett út í og mulið hratt saman með hníf (má ekki bræða smjörið í potti)
  2. Salti bætt við og síðan vatni
  3. Allt hrært saman og hnoðað aðeins með fingrunum (í skálinni) – deigið á ekki að hnoða í hrærivél
  4. Sett í ísskáp og geymt í 2 klukkustundir – skv. uppskriftinni á að geyma deigið í kæli en mér skilst að það sé allt í lagi að setja það strax í eldfasta mótið ef tíminn er naumur

Fylling

  1. Beikon steikt í ofni eða á pönnu. Ef ofn er notaður er hann stilltur á 180°C (blástursstilling). Beikonið sett á bökunarpappír og steikt í ofninum í u.þ.b. 10 mínútur (ágætt að snúa því við eftir 8 mínútur). Ef panna er notuð er best að steikja það á þurri pönnu þar til það verður stökkt. Ágætt að setja það á eldhúspappir og láta fituna renna aðeins af – beikonið skorið í bita
  2. Ofninn hitaður í 225°C (yfir- og undirhiti)
  3. Næst er eggjamassinn útbúinn – eggin léttþeytt með gaffli. Hveiti og rjóma hrært saman (ágætt að blanda fyrst litlu af rjómanum saman við hveitið) og blandað síðan saman við eggin. Kryddað (varast að salta of mikið þar sem beikonið er salt) – hrært saman

Samsetning

  1. Deigið tekið úr ísskápnum og þrýst í pæform (u.þ.b. 28 cm) – látið ná vel upp með hliðunum og síðan stungið með gaffli
  2. Beikonbitum stráð jafnt í botninn, ostasneiðar lagðar yfir og síðan er eggjahrærunni hellt yfir
  3. Bakað í u.þ.b. 15 mínútur á 225°C en þá er hitinn lækkaður í 200°C og bakað í u.þ.b. 25 – 30 mínútur í viðbót

Meðlæti: Ferskt og brakandi gott salat.

mbl.is/Hanna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert