Besta leiðin til að klúðra ekki grilluðum aspas

Næst þegar þú grillar aspas skaltu prófa þetta trix.
Næst þegar þú grillar aspas skaltu prófa þetta trix. mbl.is/Joe Lingeman

Aspas hefur verið að gera sig meira sýnilegan í gegnum árin og er hið mesta lostæti. Hann má matreiða á svo marga vegu og bera fram sem meðlæti eða jafnvel sem léttan rétt. En við þekkjum til þess að aspasinn eigi það til að hlaupa um grillgrindina og lenda jafnvel á milli og þá eru góð ráð dýr.

Til að komast hjá slíkum vandræðum er til einföld lausn, þar sem þú getur grillað 5-6 stykki saman á einu bretti. Þú einfaldlega dregur fram grillpinna og þræðir þá í gegnum aspasinn sem þú svo penslar með ólífuolíu og saltar og piprar. Munið bara að bleyta grillspjótin áður en þið setjið aspasinn upp á og á grillið.

Við mælum með að velja eins þykka aspasstöngla og mögulegt er. Þeir eru auðveldari að stinga spjótunum í gegnum og það er minni hætta á að þú ofeldir þá á grillinu. Fyrir minni gerðina af aspas er flott að nota einhvers konar grillbakka.

Þegar þú hefur grillað allan þann mat sem á að vera á boðstólnum er fínt að henda aspasinum á grillið undir það síðasta. Látið standa á grillinu í sirka 4 mínútur og snúið þá við, eða þegar grillför hafa myndast í aspasinum og hann orðinn fallega grænn að lit. Kryddið meira ef vill og kreistið jafnvel sítrónu yfir.

mbl.is/Joe Lingeman
mbl.is/Joe Lingeman
mbl.is