Fyrsta framleiðslan seldist upp

Ofur-mæðgurnar Tobba Marinósdóttir og Guðbjörg Birkis Jónsdóttir.
Ofur-mæðgurnar Tobba Marinósdóttir og Guðbjörg Birkis Jónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Mæðgurnar Tobba Marinósdóttir og Guðbjörg Birkis Jónsdóttir tóku ákvörðun um mitt síðasta ár að fara út í matvælaframleiðslu saman og stofnuðu fyrirtækið Náttúrulega gott.

„Okkur fannst vanta aukið framboð á heiðarlegri matvöru, án óþarfa sykurs, sætuefna og aukaefna. Til dæmis er mjög erfitt að finna morgunkorn sem ekki er stútfullt af sykri,“ segir Guðbjörg en þær mæðgur hafa verið að þróa uppskriftir um árabil.

„Fyrsta varan okkar er handgert granóla með eplum, kanil og pekanhnetum. Það er án alls viðbætts sykurs og inniheldurt aðeins strangheiðarleg innihaldsefni. Hér er komin vara sem fólk skilur innihaldslýsinguna á. Við munum aldrei selja vörur sem við gæfum ekki yngsta fjölskyldumeðlimnum henni Ronju Guðbjörgu sem er rúmlega eins árs. Ef hún má ekki borða vöruna þá seljum við hana ekki,“ segir Tobba en þær mæðgur voru að kynna granólað á Matarmarkaði Hörpu í desember.

„Við áttum ekki til orð yfir móttökurnar. Það seldist allt upp á mettíma og pantanirnar hrúgast inn. „Það var meira að segja einn hress sem keypti poka og var hálfnaður með gúmmelaðið þegar hann var komin að bílnum fyrir utan Hörpu svo hann snéri við til að kaupa meira,“ segir Tobba en þær mæðgur þurftu að kalla til alla fjölskylduna sem stóð vaktina í nýinnréttuðu iðnaðareldhúsi þeirra yfir hátíðirnar.

„Systir mín og kærastinn hennar flugu frá London til að aðstoða okkur og amma Regína ásamt vinkonuhernum mínum pakkaði með okkur í jólafríinu,“ segir Tobba sem segir þær mæðgur ekki taka sér neitt helgarfrí næstu vikur. Þó að granólað sé fyrst fáanlegt í Bónus í dag þá er næsta pöntun komin og því enginn tími í slór. „Það er varla tími til að skála fyrir þessum ótrúlegu máttökum! Nú er efst á dagskrá að anna eftirspurn og bæta við vöruúrvalið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert