Mataræði Adele afhjúpað: Er á kafi í sirtfood

Adele.
Adele.

Eins og heimsbyggðin veit hefur söngkonan Adele lagt töluvert af undanfarna mánuði. Samkvæmt einhverjum heimildum er sú tala komin upp í tæp 50 kíló en hvað vitum við?

Hins vegar lék okkur forvitni á að vita hvað hún hefur verið að borða þar sem matarvefurinn hefur brennandi áhuga á öllu sem viðkemur mat.

Einn af þjálfurum hennar (hún er víst með marga!), Camila Goodis, ljóstraði því upp í sjónvarpsþættinum Lorraine að Adele væri á því sem kallaðist sirtfood-mataræði og þrátt fyrir að hún væri líka að hreyfa sig mætti þakka árangurinn nær alfarið þessu mataræði.

„Og hvað er nú það?“ kunnið þið að spyrja og við spyrjum með ykkur því þetta höfum við ekki heyrt áður.

Samkvæmt því sem heimildir herma er sirtfood-mataræði sérhannað til að virkja sirtuins-prótein í líkamanum en rannsóknir sýna að þau leika mikilvægt hlutverk í að stjórna efnaskiptunum, bólgum og lífsmöguleikum. Einnig eru þau sögð hafa áhrif á hversu hratt við eldumst.

Við seljum þetta ekki dýrar en við keyptum en mataræðið er tveggja fasa. Í fyrri fasanum, sem tekur þrjá daga, er dagleg neysla hitaeininga einungis 1.000 hitaeiningar sem þú færð úr þremur grænum djúsum og einni máltíð sem inniheldur mikið af sirtfood (það eru fæðutegundir sem hafa árhif á virkni eða innihalda (við erum alveg rugluð í þessu) sirtuins-prótein).

Næstu fjóra daga er hitaeiningunum fjölgað upp i 1.500 hitaeiningar og þá færðu tvo græna djúsa og tvær máltíðir. Næstu tvær vikurnar borðar þú þrjár sirtfood-máltíðir og einn grænan djús á dag í tvær vikur.

Þær fæðutegundir sem flokkast sem sirtfood eru meðal annars grænkál, bláber, valhnetur, laukur og jarðarber. Einnig rauðvín, dökkt súkkulaði og kaffi.

mbl.is