Lúxus-eðlan sem fullkomnar partíið

Ljósmynd/María Gomez

Til er sá partíréttur sem á það til að setja heilu veislurnar á hliðina – í góðum skilningi. Þessi uppskrift hér er úr þeim ættbálki. Við erum að sjálfsögðu að tala um hina heittelskuðu eðlu en hér gefur að líta útgáfu af henni sem toppar flest.

Uppskriftin kemur úr smiðju Maríu Gomez á Paz.is og eins og við vitum öll þá klikkar María ekki.

Eðla deluxe 

 • 1 askja Philadelphia-rjómaostur með sweet chili-bragði
 • 1 krukka af ykkar uppáhalds salsa- eða nachosósu, 300-400 g er flott 
 • 500 g nautahakk 
 • 1 græn paprika 
 • 2 tsk olía 
 • 1/2 dós gular baunir eða 1-1,5 dl 
 • 1/2 dós nýrnabaunir eða 1-2 dl 
 • Rifinn mozzarellaostur, cheddarostur og ferskar mozzarellakúlur (má nota allar þrjár tegundir eða bara rifna ostinn, ég notaði alla) 
 • 1-2 pokar af nachoflögum frá Maarud 
 • salt og pipar 
 • 1 tsk þurrkað timían má sleppa 

Ofureinfalt gvakamóle

 • 3-4 lítil avókadó í neti eða sem samsvarar því 
 • 1 ferskur rauður chilipipar fræhreinsaður 
 • væn klípa af grófu salti og smá svartur pipar
 • ca 10 dropar tabascosósa 

Aðferð

Eðla deluxe 

 1. Byrjið á að smyrja rjómaostinum í botninn á eldföstu móti.
 2. Hellið næst salsasósunni yfir allt og dreifið jafnt yfir rjómaostinn.
 3. Skerið papriku í bita á stærð við teninga og hitið olíuna á pönnu.
 4. Steikið paprikuna upp úr olíunni og saltið létt yfir.
 5. Þegar paprikan er orðin glansandi og með smá brúna bletti á húðinni er gott að setja hakkið út á.
 6. Saltið vel og piprið og setjið timían út á.
 7. Skolið baunirnar vel og þegar hakkið er til slökkvið þá undir pönnunni og setjið baunirnar út á.
 8. Hrærið hakkið og baunirnar vel saman en varlega.
 9. Hellið hakkbaununum svo út á eldfasta mótið jafnt yfir alla salsasósuna.
 10. Dreifið osttegundunum þremur vel yfir allt og raðið nachoflögum í kring.
 11. Hitið svo í ofni í við 200°C blástur í 20-25 mínútur.
 12. Berið fram með gvakamóle, sýrðum rjóma og tabascosósu.

Gvakamóle 

 1. Takið kjötið úr avókadóinu úr með skeið og setjið á brauðbretti.
 2. Skerið chilipiparinn smátt og fræhreinsið hann.
 3. Stappið svo saman með gaffli eða kartöflustappara avókadó og chilialdin.
 4. Saltið og piprið og setjið tabasco yfir.
 5. Færið yfir í skál og hrærið vel saman.
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is