Glæsileg stækkun hjá GOTT í Vestmannaeyjum

Hjónin Sigurður Gíslason og Berglind Sigmars eiga veitingastaðinn GOTT í Vestmannaeyjum sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár.

Fyrir rúmu ári ákváðu þau að ráðast í framkvæmd sem var á góðri íslensku kennd við óðs manns æði en það vita þeir sem til þekkja í Vestmannaeyjum að þar láta menn fátt stoppa sig þótt á brattann sé að sækja.

Byggt var við staðinn og nýr veitingasalur tekinn í gagnið ásamt því sem eldhúsið fjórfaldaðist að stærð. Stóri munurinn er að sögn Berglindar að nú geta þau verið með veislur og tekið á móti hópum sem hafi áður reynst þeim erfitt sakir smæðar. Eins sé núna loksins hægt að bjóða upp á kokkteila og annað þvíumlíkt. Berglind segir nýja húsnæðið langþráð en það þykir einstaklega vel heppnað og mjög í anda þeirra hjóna en Berglind á heiðurinn af hönnuninni sem byggist að stórum hluta til á endurnýtingu gamalla hluta og að skapa eitthvað nýtt úr gömlu.

„Mér finnst ótrúlega gaman að gefa hlutum nýtt líf og þetta hefur líka orðið tilefni til skemmtilegra endurminninga því fólk er að sjá útsaum sem var til heima hjá ömmum og öfum hér áður fyrr. Það hafa verið ansi mörg augnablikin þar sem fólk hefur rifjað upp minningar sem útsaumurinn kallar fram. Þetta er rauði þráðurinn í því sem við gerum. Mósaíkverkið upp á vegg er til að mynda búinn til úr leirtaui sem hefur brotnað,“ segir Berglind og er ánægð með hvernig til tókst. „Þrátt fyrir stækkunina heldur staðurinn enn sínum sjarma og er jafn persónulegur og heimilislegur og hann hefur alltaf verið – það er bara meira pláss,“ segir hún og segist hlakka til að sjá Íslendinga á faraldsfæti í sumar. „Þetta sumar fer vel af stað og það leggst bara nokkuð vel í mig. Verðum við ekki að vera bjartsýn?“ bætir hún við brosandi að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »