Uppáhaldsverslanir matgæðinganna

Víða er hægt að gera góð kaup og komast í hráefni sem eru betri en gengur og gerist. Hér er listi yfir þær verslanir sem eru sérlega vinsælar meðal matgæðinga og þeirra sem vilja aðeins það besta.

Kokka

Laugavegi 47 – 101 Reykjavík — Vefslóð: kokka.is

Hér færðu öll verkfærin sem þú þarft í eldhúsið – allt frá mæliskeið upp í eldavél. Kokka selur vandaðar og endingargóðar vörur sem duga þér ævina út, eða svo til. Verslunin býður einnig upp á heimsendingar og birtir einstaka sinnum uppskriftir fyrir þá sem vilja spreyta sig á græjunum í eldhúsinu.

HYALIN

Hverfisgötu 35 – 101 Reykjavík — vefslóð: hyalin-reykjavik.com

Franska sælkeraverslunin Hyalin er ein sinnar tegundar hér á landi. Fyrir utan hversu falleg verslunin er, þá finnur þú allt sem þig dreymir um úr franskri matargerð – olíur, ólífur, andapaté, sinnep, pasta, jafnvel sardínur og edik í allskyns útgáfum er á boðstólum. Sannkallaður sælkeramatur í dós!

Hagkaup

Vefslóð: hagkaup.is

Vandað kjötborð og glæsilegt úrval af ferskum fiski er að finna í útvöldum verslunum Hagkaupa. Þú þarft því ekki að leita langt yfir skammt eftir hágæða hráefni þegar þú stendur í innkaupum fyrir heimilið – því Hagkaup bjóða einnig upp á girnilegan salatbar, ásamt nýbökuðu brauði og bakkelsi.

Sælkerabúðin

Bitruhálsi 2 – 110 Reykjavík — vefslóð: saelkerabudin.is

Margverðlaunuðu kokkarnir í nýopnaðri Sælkerabúð leggja áherslu á fyrsta flokks hráefni, persónulega þjónustu og heildarlausnir í sælkeramatargerð. Hér snýst allt um fyrsta flokks kjötvörur og lúxusmeðlæti, en Sælkerabúðin býður einnig upp á glæsilega matarpakka, líka fyrir grænkera.

Melabúðin

Hagamel 39 – 107 Reykjavík — vefslóð: melabudin.is

Í rótgróinni kaupmannsbúð finnur þú glæsilegt kjöt- og fiskborð sem miklum sögum fer af. Í Melabúðina sækja ekki bara Vesturbæingar því vinsældir verslunarinnar ná langt út fyrir póstnúmerið 107 – hjá þeim sem vilja persónulega þjónustu og breitt vöruúrval.

Ostabúðin

Fiskislóð 26 – 101Reykjavík — vefslóð: ostabudin.is

Það þarf vart að kynna Ostabúðina sem hefur fylgt okkur síðustu 20 árin með afburðahráefni. Verslunin er úti á Granda og býður upp á breitt úrval af afbragðsostum. Hér getur þú einnig sest niður í hádegismat eða pantað veislumat af bestu gerð. Hið sívinsæla grafna og reykta kjöt þeirra er sannarlega þess virði að smakka, ásamt hinni margrómuðu og heitreyktu gæsabringu, villibráðarpaté, sósum, dressingum og svo ótal mörgu fleira sem kætir bragðlaukana.

Frú Lauga

Laugalæk 6 — vefslóð: frulauga.is/

Hér er brakandi ferskt og íslenskt grænmeti í fyrirrúmi. Frú Lauga leitar einnig uppi spennandi matvörur fyrir viðskiptavini sína sem sumir hverjir koma langt að til að versla. Hér færðu einnig glútenfríar vörur og kombucha af krana, sem er það allra vinsælasta í dag hjá þeim sem kjósa heilbrigðan lífsstíl.

Vínberið

Laugavegi 43 – 101 Reykjavík — vefslóð: vinberid.is/

Ein af elstu sælkeraverslunum landsins er Vínberið, sem upphaflega var matvöruverslun en breyttist árið 1995 í sælkeraverslun sem sérhæfir sig í súkkulaði. Hér finnur þú mesta úrval landsins af súkkulaði, konfekti, súkkulaðiplötum og öðrum sætindum – fullkomið fyrir nýliða og þá sem eru lengra komnir og búnir að þróa sinn smekk í súkkulaðiáti.

Kjötkompaníið

Dalshrauni 13 og Grandagarði 29 — vefslóð: kjotkompani.is/

Grillpakkar, veislur, smáréttir og úrval af allskyns meðlæti er það sem þú finnur hjá sérfræðingunum í Kjötkompaníinu. Hér starfa fagmenn á bak við borðið þar sem áhersla er lögð á gæði og vönduð vinnubrögð. Það fer enginn sælkeri tómhentur út úr þessari verslun – sem er eins og sælgætisverslun fyrir matgæðinga.

Fiskbúð Fúsa

Skipholti 70 – 105 Reykjavík — vefslóð: fiskbudfusa.com/

Ferskasti fiskur landsins liggur í borðinu hjá Fúsa! Fiskbúð Fúsa er fiskverslun af gamla skólanum með gríðarlegt úrval fiskrétta sem og meðlæti og frosið sjávarfang. Hér færðu uppáhaldsfiskinn þinn á grillið, pönnuna, í pottinn eða í ofninn.

Fiskbúðin Vegamót

Nesvegi 100 – 170 Seltjarnarnesi — vefslóð: fiskbuinvegamot.business.site/

Fiskbúðin Vegamót er lítið fjölskyldurekið fyrirtæki sem hóf rekstur árið 2009 og hefur stimplað sig vel inn í hjörtu landsmanna sem elska góðan fisk. Laxaréttir, humar eða þorskur í reyktri papriku – úrvalið er endalaust hjá Fiskbúðinni Vegamótum.

Veganbúðin

Faxafeni 14 – 108 Reykjavík— vefslóð: veganbudin.is/

Veganbúðin er verslun fyrir alla veganista þarna úti, sem býður upp á spennandi vörur sem auðvelda grænkeralífið og ábyrgan lífsstíl. Hér finnur þú bætiefni, matvörur, sætindi og drykkjarvörur í gríðarlegu úrvali.

Kaffibrugghúsið

Fiskislóð 59 – 101 Reykjavík — vefslóð: kaffibrugghusid.is/

Þegar þig þyrstir í extra góðan kaffibolla þá er Kaffibrugghúsið staður til að sækja sér gott nýmalað kaffi. Staðurinn er einnig heildsala og heldur námskeið af ýmsum toga fyrir sanna áhugamenn um kaffi.

Omnom

Hólmaslóð 4 – 101 Reykjavík — vefslóð: omnomchocolate.com/

Súkkulaði beint frá býli! Hjá Omnom úti á Granda kemstu í nálægð við framleiðsluna á einu bragðmesta súkkulaði landsins.

Hér er regnbogann að finna í súkkulaði – þar sem úrvalið af handgerðu súkkulaði lætur ekki á sér standa.

Matbúr Kaju

Stillholti 23 – 300 Akranesi — vefslóð: facebook.com/matarburkaju/

Á Akranesi er að finna verslunina Matbúr Kaju sem rekin er af hugsjónakonunni Karenu Jónsdóttur. Karen trúir því staðfastlega að þú sért það sem þú borðar og því er allt hráefni í versluninni eins lífrænt og vandað hugsast getur.

Gæði umfram allt og kökurnar sem hægt er að fá á kaffihúsinu (sem er í sama húsnæði) eru með þeim betri sem bakaðar hafa verið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »