Nýjasti veitingastaður Garðabæjar slær í gegn

Ljósmynd/Aðsend

Þær gleðifregnir berast úr Garðabænum að búið sé að opna útibú frá hinum rómaða pítsustað Flatey á Garðatorgi 6.

Aðspurður sagði Sindri Snær Jensson, einn eigenda staðarins, horft hafi verið til Garðabæjar lengi og leitað að rétta húsnæðinu. „Við höfðum verið að horfa til Garðabæjar í talsverðan tíma og þegar möguleikinn kom á þessu húsnæði að Garðatorgi 6 þá stukkum við á það. Við fundum fyrir eftirspurn eftir Flatey utan Reykjavíkur, pizzurnar okkar eru ferskar, bakast hratt og það er alveg smá ferðalag fyrir fólk í Garðabæ, Kópavogi & Hafnarfirði að fara alla leið út á Granda. Við erum ótrúlega þakklát fyrir móttökurnar og trúum því að þetta verði virkilega skemmtilegt sumar í Garðabæ, það er góð stemmning í bæjarfélaginu og gaman að vera á Garðatorgi."

Sindri segir að viðtökurnar hafi verið góðar og greinilegt sé að Garðbæingar séu ánægðir með að fá fjölbreytni í veitingastaðaflóru bæjarins sem hefur stækkað hratt undanfarin misseri.

„Hönnun var áfram í höndum Baldurs Helga Snorrasonar og við pældum mikið í flæðinu á staðnum og að pizzabakararnir væru algjörlega í miðjunni og í allra augsýn," segir Sindri en stærsta breytingin er sjálfsagt sú að búið er að bæta Burrata salati á matseðilinn ásamt ljúffengu Panna Cotta í eftirrétt. Síðast en ekki síst sé búið að setja míni-margheritu fyrir börnin á matseðilinn sem kostar 1.000 krónur og hefur slegið í gegn að sögn Sindra. Míní-margheriturnar eru einnig í boði á öðrum Flateyjarstöðum en ljóst er að foreldrar taka þessari nýjung vel.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is