„Sem betur fer erum við með mjög marga fastakúnna“

María segir að viðskiptavinirnir hafi haldið tryggð við staðinn.
María segir að viðskiptavinirnir hafi haldið tryggð við staðinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veitingahúsið Askur, eitt elsta veitingahús landsins, hefur verið við Suðurlandsbraut í Reykjavík hátt í 60 ár og eigendurnir, sem hafa verið nokkrir, hafa verið brautryðjendur á mörgum sviðum. María Jóhannsdóttir og Haukur Ragnarsson keyptu staðinn 2006 og hefur María rekið hann ein síðan 2017. „Lengst af hefur gengið mjög vel, en vegna kórónuveirunnar hefur reksturinn eðlilega verið þungur frá því í mars. Íslendingar hafa samt haldið tryggð við okkur, þess vegna hef ég ekki lokað og vona að ekki komi til þess.“

Magnús Björnsson rak Matstofuna Vík í Keflavík frá 1957 en þegar flotinn fór austur vegna Austfjarðasíldarinnar 1963 og starfsemi verktakafyrirtækja nær lognaðist út af á svæðinu um svipað leyti var sjálfhætt. Magnús var hugmyndaríkur, fór til Bandaríkjanna þar sem hann aflaði sér upplýsinga um hvernig grilla ætti kjúklinga, einn stofnenda McDonalds smíðaði fyrir hann potta og pönnur og Askur varð að veruleika um miðjan sjöunda áratuginn. Þar bauð hann meðal annars upp á grillaða kjúklinga með frönskum og kokteilsósu, sem landinn kunni vel að meta.

Sígildir réttir

„Við bjóðum enn upp á marga þessara gömlu, sígildu rétta og fastagestir vita að hverju þeir ganga,“ segir María. „Til dæmis er Bérnaise-sósan alltaf jafn vinsæl og margir koma við bara til þess að kaupa hana og taka með sér heim,“ heldur hún áfram. Bætir við að hádegishlaðborðið á virkum dögum og steikarhlaðborðið á sunnudagskvöldum hafi lengi verið eitt aðalsmerki Asks og sé það enn. Sérréttamatseðillinn sé fjölbreyttur með mismunandi óskir viðskiptavina í huga, heimsendingarþjónustan hafi komið sér sérstaklega vel undanfarna mánuði auk þess sem hún bjóði upp á veisluþjónustu.

„Við bjóðum enn upp á marga þessara gömlu, sígildu rétta …
„Við bjóðum enn upp á marga þessara gömlu, sígildu rétta og fastagestir vita að hverju þeir ganga,“ segir María. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Frá upphafi hefur stefnan verið að halda verði fyrir mat og drykk lágu. Við höfum lagt áherslu á að hafa faglært, íslenskumælandi fólk í vinnu, ég er með frábært starfsfólk og margir hafa unnið með mér frá því við keyptum staðinn.“

Fyrir um 15 árum var mikill uppgangur í veitingahúsarekstri og María segir að viðskiptavinum hafi fjölgað jafnt og þétt árlega, þar til kórónuveiran barði að dyrum. „Eins og allir á þessum vettvangi þurftum við skyndilega að takast á við erfitt verkefni. Það hefur verið mikill skóli, við höfum lært mikið og megum vera þakklát fyrir það.“

Askur varð strax vinsælt steikhús og María segir að viðskiptavinirnir hafi haldið tryggð við staðinn. „Sem betur fer erum við með mjög marga fastakúnna, sem koma ár eftir ár,“ segir hún. „Þegar ég byrjaði hérna komu börn með foreldrum, öfum og ömmum og nú eru þessi börn vaxin úr grasi og farin að mæta með börnin sín. Þessi fastheldni skiptir okkur gríðarlega miklu máli, ekki síst í ástandi eins og nú ríkir, þegar erlendu ferðamennirnir eru víðs fjarri.“

María leggur áherslu á að fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis í hvívetna. Hún segir að tveggja metra reglan sé í hávegum höfð, fjöldatakmarkanir séu virtar og spritt og einnota hanskar innan seilingar. „Við reynum að bjóða upp á eins öruggt umhverfi og hægt er og sem betur fer hafa íslenskir viðskiptavinir haldið tryggð við okkur. Þeir halda okkur gangandi,“ áréttar hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert