Ilmandi og ómótstæðilegt „berjapæ“

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Það er fátt betra en nýbakað pæ með ís eða rjóma að mínu mati,“ segir Berglind Hreiðars á Gotteri.is og við tökum heils hugar undir það.

„Hér eru á ferðinni þrjú pæ með sama grunni en mismunandi berjum og súkkulaði. Ég varð auðvitað að nota restina af gómsætu berjunum sem ég fékk hjá Boggu frænku og galdraði því fram þessi dýrindis berjapæ úr restinni.“

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Berjabökur á þrjá vegu

Uppskrift dugar í eitt mót sem er um 25 cm í þvermál

 • 130 g smjör við stofuhita
 • 150 g hveiti
 • 50 g púðursykur
 • 40 g sykur
 • 70 g tröllahafrar
 • 350 g ber
 • 60 g súkkulaði að eigin vali

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Setjið allt saman í hrærivél og hrærið rólega með K-inu þar til vel blandað saman.
 3. Smyrjið eldfast form með smjöri og setjið þunnt lag í botninn og aðeins upp kantana.
 4. Setjið berin næst yfir allt, skerið súkkulaði niður og dreifið jafnt yfir berin.
 5. Setjið að lokum afganginn af smjörblöndunni óreglulega yfir allt saman og bakið í um 30 mínútur eða þar til bakan fer aðeins að gyllast.
 6. Gott er að bera bökuna fram með ís og karamellusósu.

Ég notaði suðusúkkulaði og aðalbláber í eitt formið, sólber og karamellusúkkulaði í annað og hefðbundin bláber í það síðasta (og ekkert súkkulaði). Síðan bar ég bökuna fram með vanilluís og heitri karamellusósu.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is