Loka í Reykjavík um næstu mánaðamót

Rekstraraðilar GOTT í Reykjavík hafa ákveðið að loka dyrunum frá og með næstu mánaðamótum. Staðurinn hefur notið mikilla vinsælda meðal borgarbúa en GOTT í Vestmannaeyjum verður áfram opinn.

Að sögn rekstraraðila bjóða aðstæður í þjóðfélaginu ekki upp á annað eins og staðan er. „Það hefur auðvitað orðið algjör forsendubrestur,“ segir Klara Óskarsdóttir, rekstrarstjóri GOTT í Reykjavík og einn eigenda. „Við erum staðsett inni á Icelandair Konsúlat-hótelinu sem er lokað og verður að minnsta kosti fram á næsta vor. Það flækir málin töluvert þar sem rekstrarkostnaður okkar eykst umtalsvert við að vera ein með starfsemi í húsinu en það hefur löngum verið stefna GOTT að vera með litla álagningu á mat og drykk. Þetta er því töluvert snúið og við metum það svo að þetta sé það skynsamlegasta í stöðunni. Hvað við gerum næst kemur í ljós en aðdáendur GOTT þurfa ekki að örvænta því staðurinn í Vestmannaeyjum er ennþá opinn og alltaf jafn vinsæll,“ segir Klara.

„Við ákváðum að tilkynna þetta fyrirfram þannig að okkar tryggu kúnnar hefðu tök á að næla sér í síðustu kvöldmáltíðina áður en við skellum í lás. Það hafa allir fullan skilning á þessari ákvörðun okkar en við vildum ekki steypa okkur í skuldir til þess eins að lifa veturinn af. Þetta var ákvörðun sem var erfið en það eina sem okkur þótti boðleg.“

GOTT Reykjavík verður sem fyrr segir opið til mánaðamóta en verður þá lokað. Ekki er ljóst hvert framhaldið verður og mun það væntanlega ráðast á næstu mánuðum hvort forsendur séu fyrir því að opna á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert