Aldrei mikilvægara að kaupa íslenskar vörur

mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Sex rótgróin og vel þekkt íslensk framleiðslufyrirtæki hafa tekið höndum saman um að hvetja íslenska neytendur til að velja íslenskar vörur, ekki síst ef þær standa jafnfætis eða eru betri en þær erlendu. Fyrirtækin eru Mjólkursamsalan, Ölgerðin, Nói-Síríus, Kjörís, Sælgætisgerðin Freyja og Gæðabakstur, en vörur frá þessum aðilum eru og hafa verið til á íslenskum heimilum um áratugaskeið.

Þessi sex fyrirtæki vilja með átakinu „Íslenskt skiptir máli“ vekja neytendur til vitundar um að íslensk framleiðsla er allt annað en sjálfsögð, enda markaðssvæðið lítið, en það að velja íslenskt tryggir ekki aðeins þúsundir starfa, heldur hefur bein áhrif á meirihluta íslenskra heimila. Íslenskar vörur þurfa mikla hlutdeild á markaði til að standa undir sér og því skiptir máli að neytendur séu meðvitaðir um að íslensk vara, sem þeim finnst sjálfsagt að fáist í verslunum, gæti horfið af markaði ef erlendur valkostur er valinn.

Íslenskar vörur skapa fjölmörg störf og í núverandi ástandi þar sem innviðir eru brothættir vegna Covid-19, skiptir máli að vernda störf. Samtök iðnaðarins hafa t.a.m. bent á að iðnaðurinn muni draga vagninn þegar Covid slotar og þá sé nauðsynlegt að Íslendingar standi saman og kaupi íslenskt. Í núverandi landslagi, þar sem horft er fram á mesta samdrátt í langan tíma, er mikilvægara en nokkru sinni að hugsa um íslenska framleiðslu.

Íslensk framleiðsla skapaði ríflega 7% af landsframleiðslu á síðasta ári, jafnvirði 219 milljarða króna. Sé fiskvinnsla tekin út stendur eftir að 17.500 manns störfuðu í framleiðsluiðnaði á síðasta ári, sem nemur um 8% starfa.

mbl.is