Þungavigtarfólk opnar veitingastað í Kringlunni

Finnur, Klara, María og Óskar á góðri stundu.
Finnur, Klara, María og Óskar á góðri stundu. Kristinn Magnússon

Eitt heitasta veitingarými landsins er án efa rýmið þar sem Cafe Bleu var til húsa í Kringlunni í áratugi. Nú er verið endurhanna og fara í mjög miklar breytingar á staðnum og loksins má ljóstra upp hverjir munu opna veitingastað þar sem Cafe Bleu var áður.

Óskar Finnsson þarf ekki að kynna fyrir neinum enda þungavigtarnafn í íslenskri veitingasögu. Það sem færri vita er að bæði börnin hans, þau Klara og Finnur, hafa fetað í fótspor hans sem kemur sennilega ekki á óvart þar sem veitingarekstur er þeim í blóð borinn. Klara kláraði nám í veitingastjórnun í Englandi árið 2008 og vann síðan hjá Coté Bistro og Brasseri Blanc þangað til hún flutti til Íslands árið 2018 til að opna Gott Reykjavík en hún var einn af eigendum og rekstrarstjóri þar. Finnur, sem er 22 ára, lærði þjóninn á Grand hóteli og er núna starfandi á Duck & Rose. Eiginkona Óskars, María Hjaltadóttir, er einnig reynslubolti á þessu sviði og ætlar hún að sjá um daglegan rekstur.

Sjálfur segir Óskar að hans hlutverk sé að vera börnum sínum innan handar, eins og heilsa hans leyfir, en boltinn sé í þeirra höndum þótt hann sé auðvitað á kantinum til að lóðsa þau um enda vandfundinn meiri reynslubolti en Óskar – sem alla jafna er kenndur við hinn fornfræga veitingastað Argentínu. 

Óskar segir að Klara og Finnur hafi valið nafnið Finnsson Bistro sem vísi til þess að um fjölskyldustað er að ræða en fjölskyldan bjó erlendis í yfir 15 ár og tók þá upp eftirnafn Óskars. „Þetta er því sannarlega fjölskylduverkefni og við getum ekki beðið eftir að opna með vorinu og bjóða gesti og gangandi velkomna. Við verðum með fjölbreyttan og spennandi matseðil þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á sanngjörnu verði.“  

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram og Face­book. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert