Geggjaðir og snarstökkir laukhringir Berglindar

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Berglind Hreiðars á Gotteri.is á þessa uppskrift sem ætti að koma sér enda eru djúpsteiktir laukhringir syndsamlega góðir.

„Ég hef nokkrum sinnum áður djúpsteikt laukhringi en það hefur alltaf verið upp úr sama deigi og ég hef djúpsteikt fisk í. Sú aðferð er líka mjög góð og auðvitað tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi og fá sér „Fish & Chips“ og laukhringi með! Ég ákvað hins vegar að prófa eitthvað annað í þetta skiptið og notaði brauðrasp og uppskar því mun stökkari laukhringi svo það má sannarlega segja að þessir séu „krönsí“ og góðir.“

Laukhringir

30-40 hringir

 • 3 stórir laukar
 • 120 g hveiti
 • 40 g lyftiduft
 • 2 msk. paprikukrydd
 • 2 egg
 • 320 ml nýmjólk
 • 1 msk. salt
 • 1 msk. hvítlauksduft
 • 1 tsk. pipar
 • 300 g brauðraspur
 • 1 l steikingarolía

Aðferð:

 1. Skerið laukinn í um ½ cm þykka hringi, losið þá í sundur og haldið eftir stærstu hringjunum (getið sett hina í poka og nýtt síðar í aðra matargerð).
 2. Blandið saman hveiti, lyftidufti og paprikudufti og veltið laukhringjunum upp úr hveitiblöndunni, leggið á bakka.
 3. Pískið saman egg og nýmjólk og kryddið, pískið saman við það sem eftir stendur af hveitiblöndunni (sem er megnið af henni).
 4. Setjið brauðrasp í aðra skál og dýfið hringjunum fyrst í eggjablönduna og hjúpið næst með brauðraspi, leggið á bakka og hitið olíuna.
 5. Steikið síðan 3-4 laukhringi í senn á meðalháum hita (tekur um 1-2 mínútur), leyfið olíunni að leka af og raðið á grind með eldhúspappír undir til að fitan leki öll af og hringirnir haldist stökkir.
 6. Berið fram með „blooming“-kokteilsósu (sjá uppskrift hér að neðan).

„Blooming“-kokteilsósa er kölluð þessu nafni erlendis því oft er svokallaður „blooming onion“ í boði á matseðli en það er risastór laukur sem búið er að skera í á sérstakan hátt og djúpsteikja. Síðan getur maður slitið sér bita og bita og dýft í sósuna.

„Blooming“-kokteilsósa

 • 80 g majónes
 • 130 g sýrður rjómi
 • 50 g piparrótarsósa
 • 30 g tómatsósa
 • 1 tsk. paprikukrydd
 • 1 tsk. hvítlauksduft

Aðferð:

 1. Vigtið allt saman í eina skál og pískið saman þar til kekkjalaust.
 2. Kælið í að minnsta kosti klukkustund áður en sósan er borin fram með heitum laukhringjum.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is