Geggjaðar ostabrauðstangir á 15 mínútum

Ljósmynd/María Gomez

Hver elskar ekki góðar ostabrauðstangir? Hér er María Gomez á Paz.is búin að einfalda okkur lífið til muna með því að galdra fram girnilegar brauðstangir á 15 mínútum sem hún ber fram með geggjuðu aioli.

Geggjaðar ostabrauðstangir á 15 mínútum

Brauðstangarolía 

 • 1 dl bragðlítil matarolía 
 • 1 msk. pizzakrydd 
 • 1/2 tsk. chiliflögur 
 • 1 tsk. hvítlauksduft (ath ekki hvítlaukssalt)
 • 1/2 tsk. salt 
 • 1/2 tsk. þurrkuð steinselja 
 • 1/2 tsk. grófmalaður svartur pipar 

Alioli frá grunni 

 • 2 1/2 dl sólblómaolía eða önnur bragðlítil olía
 • 2 hvítlauksrif eða 1/2 geiralaus hvítlaukur 
 • 1 msk. nýkreystur sítrónusafi 
 • 1 egg 
 • klípa af salti 

Alioli val 2 ekki frá grunni

 • 1 bolli majónes (mér finnst best eitthvað af erlenda majónesinu bara ekki light/fituminna)
 • 2 hvítlauksrif eða 1/2 geiralaus hvítlaukur 
 • 1 msk. nýkreystur sítrónusafi 
 • klípa af salti 

Brauðstangir 

 • 1 pakki Hatting pizzabotnar 
 • 2 pokar rifinn Mozzarella ostur 
 • 60 gr rifinn paremesan ostur 

Aðferð

Brauðstangarolía 

 1. Hellið olíu í skál 
 2. Setjið öll krydd út í og hrærið vel saman

Alioli frá grunni 

 1. Inn á Instagram getið þið séð í highlights aðferðina við að gera alioli, mæli með að þið farið þar inn en það þarf að eiga töfrasprota til að geta gert hana
 2. Setjið í djúpt ílát allt sem á að vera í sósunni, skerið bara hvítlaukinn smátt ofan í þarf ekki að merja 
 3. setjið næst töfrasprotann alveg á botninn á ílátinu og ekki hreyfa hann neitt meðan þið byrjið að þeyta 
 4. Haldið töfrasprotanum alveg kyrrum og notið meðalhraða. Þið sjáið fljótt hvernig byrjar að myndast hvítt fallega glansandi mayones 
 5. Þegar er örlítil olía efst en restin er orðin hvít megið þið ýta sprotanum upp og niður í smá stund 

Alioli val 2 ekki frá grunni

 1. Hrærið majónes vel upp í skál 
 2. Merjið svo hvítlauk út í og kreystið sítrónusafann saman við
 3. saltið og smakkið eftir smekk ég vil hafa mína frekar salta

Brauðstangir 

 1. Afþýðið pizzabotninn á borði eða stingið í örbylgju í 30 sekúndur 
 2. Þó pizzabotninn sé alveg til finnst mér gott að að fletja það enn meira út með kökukefli eins og ef maður væri að fletja út deig til að fá það þynnra 
 3. Setjið vel af rifnum mozzarella osti á eitt brauð og lokið því svo með því að setja annað brauð ofan á eins og samloku 
 4. Penslið svo sitthvora hliðina með brauðstangarolíunni og dreifið parmesan yfir báðum megin.
 5. Setjið á bökunarplötu með bökunarpappa og stingið í ofn við 195 C°hita í 10 mínútur eða þar til orðnar fallega appelsínugylltar að lit
 6. takið út og skerið svo í lengjur þversum eins og brauðstangir með pizzaskera 
 7. Berið fram með alioli sósu

Punktar

Ég set inn tvær uppskriftir af alioli svo þið getið valið að gera hana frá grunni eða fara auðveldu leiðina. Báðar eru samt mjög einfaldar og taka litla stund að gera. Hins vegar verður að notast við töfrasprota ef þið gerið frá grunni. Báðar alioli tegundirnar taka ekki nema fimm mínútur að gera og eru alveg jafn góðar myndi ég segja. Ef þið gerið frá grunni er hrátt egg í henni svo ef þú vilt forðast það notist þá við þá sem er úr tilbúnu majónesi.

Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is