Kampavínstappi frumsýndur á Hönnunarmars

Þessir flottu kampavínstappar verða frumsýndir á Hönnunarmars - en þeir …
Þessir flottu kampavínstappar verða frumsýndir á Hönnunarmars - en þeir þjóna jafnframt tilgangi sem snagi. Mbl.is/Mynd aðsend

Hvern hefði grunað að kampavínstappi yrði frumsýndur hér á landi á Hönnunarmars, sem er í fullum gangi þessa dagana. Og hér er um engan venjulegan tappa að ræða því hann þjónar annarskonar hlutverki en að tappa flösku. Það er keramíkhönnuðurinn Dagný Gylfadóttir sem hannar undir nafninu DAYNEW, og á heiðurinn af tappanum flotta. Dagný útskrifaðist með BA gráðu í keramíkhönnun frá University of Cumbria árið 2014 og rekur vinnustofu í Íshúsi Hafnarfjarðar ásamt því að vera einn af sjö eigendum Kaolin keramík gallerý.

Þessi fallegi kampavínstappi er ekki bara smart og öðruvísi, því hann þjónar hlutverki að vera snagi sem kemur eflaust einhverjum á óvart. En hver er hugmyndin á bak við snagann? „Ég ákvað að taka þátt í sýningunni „Snagi - höngum saman - það er í góðu lagi að hanga saman“ á Hönnunarmars, sem er haldin í tilefni af 40 ára afmæli Leirlistafélagsins. Hugmyndin kom frá forminu á kampavínstappa, þar sem ég renndi fyrst frumgerðina á rennibekk og ákvað síðan að hafa hann stærri - mig langaði að búa til snaga sem væri glæsilegur á vegg. Snagi sem væri tilvalinn fyrir fíneríið og skartið okkar eins og t.d. hálsmen, slæður og spariveski. Leyfa þessu að vera til sýnis til að njóta – og að skreyta veggina, eins og við skreytum okkur sjálf. Ég  hanna flesta keramík munina mína í retro glam stíl, sem ég er afar hrifin af“, segir Dagný í samtali.

Dagný segir að uppáhaldsdrykkurinn hennar sé kampavínið „Veuve Clicquot Brut“. „Það er sérstök sparistemning að dreypa á því. Ég kann líka að baka ekta franskar macarones sem eru sérstaklega ljúfengar með kampavíni.“

Tappinn flotti kemur í tveimur stærðum, og eins er hann í nokkrum útgáfum þar sem hann er fáanlegur í pastelbleikum, pastelblágrænum og hvítum lit. Og flestir eru þeir með gyllingu sem Dagný stráir yfir í lokin á framleiðsluferlinu. „Mér finnst gullið gera áferðina svipaða korkinum sem er á víntöppum. Ein týpan frá mér er með loftbólumunstri sem minnir á loftbólurnar í kampavíni, en því minni sem loftbólurnar eru því meiri gæði eru í  kampavíninu. Fleiri litir eru væntanlegir og hægt verður að sérpanta snaga hjá mér í óskalitum og jafnvel með texta á toppnum“, segir Dagný, en sérpantaður kampavínstappi/snagi hljómar eins og draumagjöf fyrir einstakling sem kann gott að meta.

Á Hönnunarmars verður snaginn til sýnis á þremur stöðum, eða í Rammagerðinni, Kaolín á Skólavörðustíg og á Kattarkaffihúsinu á Bergstaðastræti. Eins má finna DAYNEW á Facebook eða Instagram.

Tappar með búbblum!
Tappar með búbblum! Mbl.is/Mynd aðsend
Snagarnir koma í tveimur stærðum og þremur litum.
Snagarnir koma í tveimur stærðum og þremur litum. Mbl.is/Mynd aðsend
Mbl.is/Mynd aðsend
Mbl.is/Mynd aðsend
Dagný Gylfadóttir keramíkhönnuður.
Dagný Gylfadóttir keramíkhönnuður. Mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert