Kaffi getur bjargað lífi þínu

Kaffi er heilsubót ef marka má nýjar rannsóknir.
Kaffi er heilsubót ef marka má nýjar rannsóknir. mbl.is/Getty Images

Samkvæmt nýjustu rannsóknum eru kaffidrykkjumenn um helmingi líklegri til að lifa lengur en aðrir, sláandi en jafnframt jákvæðar fréttir fyrir þá sem drekka mikið kaffi.

Rannsóknin var gerð af Oliver Kennedy, lækni frá University of Southampton í Bretlandi. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að þrír til fjórir kaffibollar, með koffíni sem og koffínlausir, dragi úr hættu á CLD (langvinnum lifrarsjúkdómi), sem getur dregið fólk til dauða. Í rannsókninni tóku hátt í 500 þúsund manns frá Bretlandi þátt á tæplega 11 ára tímabili. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að kaffidrykkjumenn eru um 21% ólíklegri til að fá CLD og um 20% minni líkur eru á að þeir fái CLD eða fitusjúkdóm í lifur. En fjöldi dauðsfalla á heimsvísu vegna CLD hefur aukist úr 899 þúsundum yfir í 1,32 milljónir manna, samkvæmt rannsókninni.

Ávinningurinn af kaffidrykkju var sérstaklega áberandi í hópnum sem drakk malað kaffi, frekar en skyndikaffi og hefur umræða komið upp um að nota kaffi sem fyrirbyggjandi meðferð við langvinnum lifrarsjúkdómum – og þykir sérstaklega dýrmætt í þeim löndum sem búa við verra aðgengi að heilsugæslu og sjúkdómurinn er ríkjandi. Í rannsókninni voru aðallega hvítir með betri félags- og efnahagslegan bakgrunn sem tóku þátt, en doktor Oliver Kennedy vonast til að geta staðfest niðurstöðurnar enn frekar með fjölbreyttari hópi í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert